Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Við erum bara peð þegar öllu er á botninn hvolft“

23.12.2020 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd: Bjarki Borgþórss - RÚV
Búið er að þétta net mælitækja í grennd við skriðurnar sem féllu við Seyðisfjörð til að fylgjast náið með hreyfingum í fjallinu. Snjóflóðaeftirlitsmaður á Seyðisfirði kallar eftir því að eftirlitskerfið verði eflt enn frekar þannig að hægt verði að nálgast upplýsingar um hreyfingar í fjallinu í rauntíma.

Bjarki Borgþórsson, sem gegnir snjóflóðaeftirliti á Seyðisfirði fyrir Veðurstofu Íslands,  hefur undanfarna daga farið ásamt Jóni Hauki Steingrímssyni, verkfræðingi upp í hlíðar Botnabrúnar til að fylgjast með sprungumyndunum og setja upp svokallaða spegla sem eru mælitæki til að fylgjast með jarðvegshreyfingum. Á meðfylgjandi mynd sem Jón Haukur tók sést Bjarki standa ofan við sár sem myndaðist þegar stóra skriðan á föstudag féll. Maðurinn er ekki ýkja stór í samanburði við sárið í fjallshlíðinni. Í samtali við fréttastofu segist Bjarki hafa fundið til smæðar sinnar þar sem hann stóð ofan við flóðið í hlíðum Botnabrúnar með Strandartind í baksýn.

„Þessi mynd sýnir aðeins smá hluti af flóðinu. Þetta er svo ofboðslega stórt að heilinn á fólki nær varla yfir það hvað þetta er stórt. Þetta er eitthvað sem hefur átt sér mikinn og langan aðdraganda. Við erum bara peð þegar öllu er á botninn hvolft,“ segir Bjarki.

Þétta net mælitækja

Fram til þessa hafa verið mælar í hlíðunum í kringum Seyðisfjörð til að fylgjast með hreyfingum í hlíðinni. Þeir voru settir upp í haust.Verið er að þétta net þeirra til að fá skýra mynd af hreyfingum. Bjarki segir að það sé alvanalegt að jarðvegur í fjallshlíðum sé á hreyfingu en hreyfingin dagana fyrir skriðuföllin hafi verið álíka mikil og á fimm til tíu ára tímabili. Til að kalla fram mælingu þarf að fara upp í hlíðarnar til að senda mælipunkt handvirkt í alstöð sem er handan fjarðarins. Þannig sést mismunur frá fyrri mælingu. Hann segir að til að mynda í Noregi sé hægt að fylgjast með hreyfingum í rauntíma þar sem mæling er send á milli spegils og mælis í sífellu. Þær upplýsingar séu aðgengilegar almenningi í rauntíma sem og aðrar rannsóknir og mælingar.

Bjarki segir að fólk í þorpinu sé enn að meðtaka og melta atburði seinustu daga. Fólk er þakklátt fyrir að enginn hafi farist í því en langt sé í að starfsemi og mannlíf í þorpinu komist í fyrra horf. Sá hluti þorpsins þar sem stórir vinnustaðir eru sé lokaður af og þó að fólk sé komið til síns heima getur það ekki komist til vinnu sinnar. Búið sé að höggva stór skörð í þennan hluta þorpsins, bæði vegna flóðanna og tveggja bruna sem hafa orðið seinustu ár á þessu svæði.

Hamfaraflóð frekar en aurskriða

Lauslega áætlað segir Bjarki að um 70.000 rúmmetrar af efni hafi losnað í flóðinu sem hann vill frekar tala um sem hamfaraflóð en skriðu, því þetta sé ekkert í líkingu við þær skriður sem Seyðfirðingar og fleiri sem búa við fjöll kalla skriður. Nánari mælingar á umfangi og magni efnis fara fram á næstu dögum og vikum. Hann vísar til skriðufalla í Wales árið 1966 þar sem 144 fórust í bænum Aberfan, en sú skriða var um 110 þúsund rúmmetrar. Nánar má lesa um þau skriðuföll hér.

Verkfræðistofan Efla setti inn myndskeið í morgun sem sýnir í þrívídd ástandið á Seyðisfirði fyrir og eftir aurskriðurnar. Dróna var flogið yfir svæðið og sett fram kortalíkan í þrívídd til að hægt væri að greina betur ástand svæðisins.