
Tveggja ára dómur fyrir mótmæli í Rússlandi
Galyamina skipulagði og tók þátt í mótmælum í Moskvu í sumar og í fyrra, og slíkt er lögbrot í Rússlandi. Saksóknarar fóru fram á þriggja ára fangelsisdóm en niðurstaðan í dag var tveggja ára skilorðsbundinn dómur. Yfir 150.000 manns tóku þátt í undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að hún yrði ekki dæmd og nokkur mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan dómstólinn í dag. Hún ávarpaði fólkið, áður en dómurinn var kveðinn upp, og sagði marga Rússa hafa verið svipta þeim réttindum að tjá stjórnmálaskoðanir sínar, því sé mikið í húfi. Þá sagði hún að fulltrúar stjórnmálaflokks Pútíns, Sameinaðs Rússlands, hugi fremur að hag yfirboðara sinna en að hag almennings. Því þurfi að berjast gegn.
Galijamina er 47 ára prófessor við Higher School of Economics í Moskvu og á sæti í einu af hverfisráðum borgarinnar. Samkvæmt lögum getur hún ekki boðið sig fram á ný því hún hefur hlotið dóm fyrir ítrekuð mótmæli, að því er segir í frétt Moscow Times. Í dómnum segir að mótmælin hafi verið ólögmæt, verið ógn við heilsu borgarbúa og truflað umferð gangandi og akandi vegfarenda um borgina.
Fjöldi fólks beið hennar fyrir utan dómstólinn síðdegis og fagnaði henni þegar hún kom út.
Mótmælin sem Galyamina tók þátt í og skipulagði voru gegn breytingum á stjórnarskrá Rússlands í sumar en þær heimila Vladimír Pútín að bjóða sig fram á ný þegar núverandi kjörtímabili lýkur, árið 2024. Galyamina, ásamt fleirum, safnaði 40.000 undirskriftum gegn stjórnarskrárbreytingunum, og kröfðust þess að dómstólar myndu dæma þær ógildar. Breytingarnar samþykktu Rússar í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Einnig var hún dæmd fyrir mótmæli í fyrra þegar fjölda frambjóðenda var meinað að bjóða sig fram til setu á borgarþingi Moskvu.
Sjálfur undirritaði Pútín í gær lög um ævilanga friðhelgi þeirra sem gegnt hafa forsetaembætti. Samkvæmt eldri lögum gilti friðhelgin aðeins á valdatíma forseta. Þá fá forsetar einnig að taka sæti í öldungadeild þingsins eftir að þeir láta af embætti og geta setið til æviloka.