Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tveggja ára dómur fyrir mótmæli í Rússlandi

23.12.2020 - 22:12
epa08900812 Opposition politician, municipal deputy Yulia Galyamina  speaks to media upon arrival to attend a verdict announcement at the Tverskoy district court in Moscow, Russia, 23 December 2020. Yulia Galyamina was one of organizers of rallies against a package of amendments to the Russian Constitution. The criminal case against Galyamina was opened at the end of July 2020 on charges with repeatedly violating the order of organizing or holding meetings. A prosecutor requested a three-year jail sentence for her.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússneskur stjórnarandstæðingur, Yulia Galyamina, fékk í dag tveggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir að hafa ítrekað skipulagt mótmæli, meðal annars gegn stjórnarskrárbreytingum sem heimila Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að bjóða sig fram á ný árið 2024, þegar núverandi kjörtímabili lýkur.

Galyamina skipulagði og tók þátt í mótmælum í Moskvu í sumar og í fyrra, og slíkt er lögbrot í Rússlandi. Saksóknarar fóru fram á þriggja ára fangelsisdóm en niðurstaðan í dag var tveggja ára skilorðsbundinn dómur. Yfir 150.000 manns tóku þátt í undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að hún yrði ekki dæmd og nokkur mannfjöldi safnaðist saman fyrir utan dómstólinn í dag. Hún ávarpaði fólkið, áður en dómurinn var kveðinn upp, og sagði marga Rússa hafa verið svipta þeim réttindum að tjá stjórnmálaskoðanir sínar, því sé mikið í húfi. Þá sagði hún að fulltrúar stjórnmálaflokks Pútíns, Sameinaðs Rússlands, hugi fremur að hag yfirboðara sinna en að hag almennings. Því þurfi að berjast gegn. 

Galijamina er 47 ára prófessor við Higher School of Economics í Moskvu og á sæti í einu af hverfisráðum borgarinnar. Samkvæmt lögum getur hún ekki boðið sig fram á ný því hún hefur hlotið dóm fyrir ítrekuð mótmæli, að því er segir í frétt Moscow Times. Í dómnum segir að mótmælin hafi verið ólögmæt, verið ógn við heilsu borgarbúa og truflað umferð gangandi og akandi vegfarenda um borgina. 

Fjöldi fólks beið hennar fyrir utan dómstólinn síðdegis og fagnaði henni þegar hún kom út. 

Mótmælin sem Galyamina tók þátt í og skipulagði voru gegn breytingum á stjórnarskrá Rússlands í sumar en þær heimila Vladimír Pútín að bjóða sig fram á ný þegar núverandi kjörtímabili lýkur, árið 2024. Galyamina, ásamt fleirum, safnaði 40.000 undirskriftum gegn stjórnarskrárbreytingunum, og kröfðust þess að dómstólar myndu dæma þær ógildar. Breytingarnar samþykktu Rússar í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar. Einnig var hún dæmd fyrir mótmæli í fyrra þegar fjölda frambjóðenda var meinað að bjóða sig fram til setu á borgarþingi Moskvu. 

epa08901018 Russian President Vladimir Putin holds a joint meeting of the country's State Council and the Council for Strategic Development and National Projects, via teleconference call, at the Novo-Ogaryovo state residence outside Moscow, Russia, 23 December 2020. Putin on 23 December 2020 said he was not expecting much change in the US-Russian relations with Biden as US president.  EPA-EFE/MICHAIL KLIMENTYEV/SPUTNIK/KREMLIN POOL / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL

Sjálfur undirritaði Pútín í gær lög um ævilanga friðhelgi þeirra sem gegnt hafa forsetaembætti. Samkvæmt eldri lögum gilti friðhelgin aðeins á valdatíma forseta. Þá fá forsetar einnig að taka sæti í öldungadeild þingsins eftir að þeir láta af embætti og geta setið til æviloka.