Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrír af hverjum tíu stjórnendum skynja samráð á markaði

23.12.2020 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír af hverjum tíu stjórnendum íslenskra fyrirtækja skynja samráð um samkeppnishamlandi aðgerðir á mörkuðum. Einn af hverjum tíu telur að markaðsráðandi fyrirtæki misnoti stöðu sína.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins um þekkingu og viðhorf stjórnenda íslenskra fyrirtækja til samkeppnismála. Stjórnendur stærstu fyrirtækjanna segjast síður skynja misnotkun á markaðsráðandi stöðu en stjórnendur þeirra minni.

Takmörkuð þekking stjórnenda á samkeppnislögum

Niðurstöður könnunar sem Samkeppniseftirlitið lagði fyrir um tvö þúsund stjórnendur fyrirtækja á Íslandi varpa meðal annars ljósi á þekkingu þeirra á samkeppnislögum. Til dæmis þekkja aðeins fjórir af hverjum tíu 10. grein samkeppnislaga um bann við samráði og 30 prósent þekkja greinina frekar illa, mjög illa eða alls ekki. Stjórnendur stærri fyrirtækja eru líklegri til að þekkja hana en stjórnendur smærri fyrirtækja. Þekkingin á 11. greininni, banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu, er svipuð.

Þá þekkja langfæstir stjórnendur fyrirtækja inn á beitingu evrópskra samkeppnisreglna hér á landi, en þar sem Ísland er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gilda hér evrópsk samkeppnislög og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og eftirlitsstofnun EFTA geta beitt viðurlögum á grunni þeirra. Aðeins 2 prósent stjórnenda þekkja vel til þeirra og 6 prósent segjast þekkja hana frekar vel. 75 prósent þekkja hana frekar illa, mjög illa eða alls ekkert. 

Fæstir gert sérstakar ráðstafanir til að fylgja lögum

70 prósent fyrirtækja hafa ekki gert neinar sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja að samkeppnislögum sé fylgt í fyrirtækinu. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins segir að forsenda þess að markmiði samkeppnislaga sé náð sé að fyrirtæki og stjórnendur þeirra þekki lögin og geti sett þau í samhengi við starfsemi sína, og séu með áætlanir eða ferla til staðar í því skyni að lágmarka líkurnar á brotum. 

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að aðeins tvö af hverjum tíu fyrirtækjum hafa, á undanförnum fjórum árum, lagt sérstaka vinnu í að gera ráðstafanir til þess að fylgja samkeppnislögum. Sjö af hverjum tíu hafa ekki gert það, og 11 prósent stjórnenda vissu ekki hvort gripið hefði verið til slíkra ráðstafana innan fyrirtækisins. Fyrirtæki í atvinnugreinum fjármála- og vátryggingastarfsemi eru líklegust til að hafa gert slíka ráðstafanir og því næst fyrirtæki í heild- og smásöluverslun og í viðgerðum ökutækja. 

25 prósent finna fyrir samkeppnishamlandi ákvæðum

Einn af hverjum fjórum stjórnendum fyrirtækja skynjar að í gildi séu samkeppnishamlandi lög, reglur eða reglugerðir  á þeim mörkuðum sem fyrirtækið starfar. Flestir skynja samkeppnishamlandi lög, reglur og reglugerðir í atvinnugreinunum fjármála- og vátryggingastarfsemi og í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum. 

Niðurstöðurnar sýna einnig að starfsemi Samkeppniseftirlitsins dregur úr samkeppnishamlandi háttsemi hér á landi.  Til dæmis hefur um fjórðungur fyrirtækja látið íslensk samkeppnislög og starfsemi Samkeppniseftirlitsins hafa áhrif á ákvarðanir um samruna og yfirtökur fyrirtækis. Þá telja fjórir af hverjum tíu stjórnendum að samkeppnislög og starfsemi Samkeppniseftirlitsins vinni gegn misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu.

Könnunin var framkvæmd af MMR í lok árs 2019 og byrjun árs 2020 á meðal 8 þúsund íslenskra fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Tæplega 2 þúsund fyrirtæki svöruðu könnuninni.