Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sífellt vinsælli, enda ilmar hún og heldur sér vel

23.12.2020 - 21:26
Mynd: RÚV / RÚV
Stafafuran er sú jólatrjátegund sem flestir, sem velja lifandi tré, kaupa. Barrheldni þessarar trjátegundar gæti haft þar nokkur áhrif, en einnig er stafafuran umhverfisvænn kostur, því að hún er ræktuð í stórum stíl hér á landi. Þá gæti ilmur hennar valdiði auknum vinsældum. Þetta segir Ragnhildur Freysteinsdóttir hjá Skógræktarfélagi Íslands.

Ragnhildur var gestur Síðdegisútvarps Rásar tvö í dag. „Klassíska jólatréð á Íslandi var alltaf rauðgrenið. En undanfarin ár hefur stafafuran sífellt verið að vinna á. Hún seldist langmest í fyrra,“ sagði Ragnhildur.

Stafafuran fellir ekki barr í sama mæli og önnur jólatré og Ragnhildur segir að það eigi líklega sinn þátt í vinsældum hennar.

„Hún er miklu barrheldnari en grenið. En grenið er aftur á móti hefðbundnara í laginu fyrir þá sem vilja þessa hefðbundnu keilulögun.  Stafafuran vex mjög vel hér á landi og það er ekki erfitt að rækta hana hér og fá falleg jólatré. Og svo ilmar hún líka svo vel, það spilar inn í.“

Ragnhildur segir íslensku jólatrén umhverfisvænasta kostinn sem völ sé á og að það eigi án efa sinn þátt í auknum vinsældum þeirra með aukinni umhverfisvitund fólks.  „Það er ekki verið að eyða kolefni í að flytja þau langar leiðir. Þau eru vistvænt ræktuð, það er nánast ekkert notað af eitrunar- eða úðaefnum við ræktunina.“

Ragnhildur segir að innlend jólatré séu um fimmtungur allra jólatrjáa sem seljast hér á landi. Þau sem flutt séu inn komi að mestu leyti frá Danmörku og þetta hlutfall hafi haldist nokkuð svipað undanfarin ár. Hún segir að undanfarin ár hafi jólatrjáaræktendum fjölgað. „Skógarbændur hafa verið að koma inn, það er nýjung. Fyrir 20 árum voru fáir þeirra komnir með tré í rétta stærð, en núna er þetta allt að koma.“