Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Pútín tryggir sjálfum sér friðhelgi til æviloka

23.12.2020 - 04:13
epa08897624 Russian President Vladimir Putin attends a video conference meeting on the occasion of the signing of a memorandum of intent between Russia's Gamaleya National Research Center of Epidemiology and Microbiology, the AstraZeneca company, the Russian Direct Investment Fund (RDIF), and R-Pharm pharmaceutical company on cooperation in the COVID-19 prevention, at the Kremlin in Moscow, Russia, 21 December 2020.  EPA-EFE/ALEXEI NIKOLSKY/SPUTNIK/KREMLIN / POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, undirritaði í gær löggjöf sem tryggir fyrrverandi Rússlandsforsetum ævilanga friðhelgi gagnvart ákæruvaldinu og sæti í öldungadeild rússneska þingsins frá þeim degi sem þeir láta af embætti allt til æviloka.

Fyrri löggjöf veitti fyrrverandi forsetum líka friðhelgi, en einungis vegna glæpa sem framdir voru í valdatíð þeirra sjálfra. Nýju lögin veita þeim ævilanga friðhelgi og kveða á um að ekki megi handtaka þá, leita á þeim eða heimilum þeirra, yfirheyra þá eða sækja til saka yfir höfuð, óháð því hvort glæpirnir voru framdir áður, eftir eða á meðan þeir voru í embætti. Jafnframt gerir löggjöfin það mun erfiðara en áður að upphefja friðhelgi fyrrverandi forseta. 

Fylgir í kjölfar víðtækra breytinga á stjórnarskrá

Þessi nýja löggjöf fylgir fast á hæla gagngerra breytinga á stjórnarskrá og stjórnkerfi Rússlands, sem Pútín fékk samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðlsu í sumar sem leið. Þær fela meðal annars í sér að honum er heimilt að bjóða sig fram til forseta tvisvar í viðbót og sitja á forsetastóli til ársins 2036 fái hann til þess stuðning kjósenda.

Án þessara breytinga hefði Pútín neyðst til að láta af embætti í lok þessa kjörtímabils, árið 2024, eftir samtals 24 ár á forsetastóli. Forsetinn, sem er 68 ára gamall, hefur ekkert látið uppi um það opinberlega hvort hann ætlar að bjóða sig fram fimmta sinni eftir fjögur ár. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV