Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Megas segir frá því þegar hann var bannaður á RÚV

Mynd: - / RÚV

Megas segir frá því þegar hann var bannaður á RÚV

23.12.2020 - 09:29

Höfundar

Sú saga, að Megas hafi eitt sinn verið bannaður á Ríkisútvarpinu, hefur svifið manna á milli áratugum saman. Megas segir sjálfur að haldinn hafi verið neyðarfundur í Útvarpshúsinu vegna fyrstu plötu hans.

Magnús Þór Jónsson, Megas, sagði frá því í afmælisútsendingu Ríkisútvarpsins hvernig mál æxluðust þannig að tónlist hans var tekin úr spilun í útvarpinu.

„Það er búið að fegra og snyrta þetta til allt saman. En sannleikurinn er sá að ég kom plötunni upp í útvarp og hitti Jón Múla sem var ofboðslega þurrkuntulegur einhvern veginn og sagði: „Heyrðu, við erum ekkert skyldug til að spila það sem þú kemur með.“ Bara til að láta vita að hann mundi ekkert kynna plötuna,“ segir Megas.

Hérna kemur plata sem á ekki eftir að heyrast aftur

Platan hafði raunar verið kynnt áður bætir hann við, í umferðarþætti útvarpsins sem fluttur var um verslunarmannahelgi. Megas segir að hún hafi verið kynnt með heldur afgerandi fororði: „Hérna kemur plata sem á ekki eftir að heyrast aftur í Ríkisútvarpinu.“

Platan var þó spiluð eitthvað eftir að hún kom út, meðan „tónlistardeildin var sofandi á verðinum.“ En svo henti það að lagið Vertu mér samferða inn í blómalandið amma var spilað þegar Sigurliði Kristjánsson, eða Silli, verslunarmaður lést. Þegar tónlistardeildinni barst lagið til eyrna vaknaði hún upp við vondan draum, segir Megas, og uppi varð fótur og fit.

„Það var haldinn neyðarfundur ... og býsnast yfir því hvernig nokkurt svona kæmist inn í útvarpið. Niðurstaðan af þeim fundi var að hún var fjarlægð og fór í einkasafn Jóns Múla ... Hún var sem sagt komin í bann og gerð útlæg. Þetta þótti versta plata frá a-ö.“

Laumaðist inn bakdyramegin

En ekki var útvarpið með öllu laust við hina svívirðilegu plötu.

„Síðan, annar aðilinn er nú látinn, var það þannig að Pétur Pétursson þulur stóð í einhverju lagaþrasi út af sínum sjoppueignum. Lögfræðingur hans, Gunnar Eydal sem var vinur konunnar minnar, hann lét Pétur hafa plötu og sagði: „Það greiðir nú fyrir málaferlunum ef þú spilar þetta.“ Þannig laumaðist hún inn bakdyrameginn. Svoleiðis að hún var nú aldrei forboðin, það var ekki hægt að eltast við það þó að hún heyrðist.“

Eiríkur Guðmundsson ræddi við Megas í afmælisútgáfu Víðsjár í tilefni af 90 ára afmæli Ríkisútvarpsins.

Tengdar fréttir

Tónlist

Finnst Megasi ekki hafa verið umbunað nóg

Tónlist

Magga Stína breiddi yfir umdeilt lag Megasar

Tónlist

Megas sjötugur: „Bannfærði“ þátturinn