Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Máttu taka myndir af bílflökum og ónýtum vinnuvélum

23.12.2020 - 09:49
Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd: RÚV
Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að starfsmaður heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi mátt taka myndir af lóð íbúa í átaki sem nefndist „Hreint Suðurland“. Á myndunum mátti sjá númerslausa bíla, bílflök og ónýtar vinnuvélar sem eftirlitið taldi vera til lýta fyrir umhverfið.

Íbúinn kvartaði til Persónuverndar en hann var ekki heima þegar fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins bar að garði. Hann taldi að eiginkonu sinni hefðu ekki verið veittar nægar upplýsingar um ástæðu heimsóknarinnar.

Myndir hefðu verið teknar af fasteignum og lausafjármunum við heimilið án heimildar.  Í heimsókninni hefði falist alvarleg hótun um upptöku persónulegra eigna, jafnvel niðurbrot á húsum sem væru í viðgerð.  Þetta hefði verið brot á grundvallarrétti hans sem persónu. Hann krafðist þess jafnframt að gögnunum yrði eytt að honum viðstöddum.

Heilbrigðiseftirlitið sagði heimsóknina hafa verið hluta af átaki sem nefndist „Hreint Suðurland“.  Það hefði verið vel kynnt og jafnframt ratað í fréttir fjölmiðla.  Í þessu máli hefði verið rætt við eiginkonu mannsins.  Hún hefði tekið erindinu vel og ekki gert athugasemdir við skoðun og myndatöku heilbrigðisfulltrúans.

Í framhaldi af heimsókninni var sent bréf með ljósmyndum.  Þær hefðu  meðal annars sýnt númerslausa bíla, bílflök og ónýtar vinnuvélar sem heilbrigðiseftirlitið taldi vera til lýta fyrir umhverfið. Íbúinn var hvattur til að hreinsa lóðina og fékk frest til þess. Yrði lóðin ekki hreinsuð yrði það gert á kostnað hans. 

Persónuvernd bendir á að heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi gert eiginkonu íbúans viðvart um vettvangsathugunina. Þá hafi hann fengið tækifæri á að andmæla fyrirhuguðum aðgerðum heilbrigðiseftirlitsins. Eftirlitið hafi því ekki brotið gegn persónuverndarlögum. Þá féllst stofnunin ekki á að gögnunum yrði eytt þar sem slíkt væri ekki heimilt nema á grundvelli ákvörðunar Þjóðskjalasafns Íslands.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV