Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Lítil breyting á fylgi stjórnar og stjórnarandstöðu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Ný skoðanakönnun Zenter og Fréttablaðsins sýnir tiltölulega litlar breytingar á fylgi stjórnar og stjórnarandstöðu í heild en eilítið meiri sveiflur í fylgi einstakra flokka, einkum í stjórnarandstöðunni. Fréttablaðið greinir frá.

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna nánast óbreytt

Fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna, mælist 40,4 prósent og dalar um samtals 0,4 prósentustig samkvæmt könnuninni, sem gerð var frá 11. - 19. desember.

7,3 prósent segjast styðja Framsókn, sem lækkar um liðlega hálft prósentustig milli kannana. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar litlu minna og stendur í 22,9 prósentum en Vinstri græn bæta hálfu prósenti við sig og mælast með 10,2 prósenta fylgi.

Píratar með næst-mest fylgi, Samfylking og Miðflokkur dala 

Píratar eru sá stjórnarandstöðuflokkur sem bætir mest við sig milli kannana, eða rúmlega þremur prósentustigum. Mælast þeir með næst-mesta fylgið, á eftir Sjálfstæðisflokknum, en 17 prósent svarenda segjast styðja Pírata. 

Samfylkingin dalar mest milli kannana, eða um ríflega hálft annað prósentustig, og er með stuðning 15,6 prósenta svarenda. Fylgi Viðreisnar eykst eilítið og er nú 10,2 prósent.

Fylgi Miðflokksins er samkvæmt þessari könnun 6,7 prósent og hefur ekki mælst lægra í könnunum Fréttablaðsins og Zenter síðan í mars 2019. Flokkur fólksins stendur nokkurnveginn í stað milli kannana með 4,7 prósenta fylgi, en Sósíalistar njóta stuðnings 3,3 prósenta þeirra sem svöruðu.  

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV