Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lína Birgitta braut lög með færslum um Sætar syndir

23.12.2020 - 08:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendastofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að áhrifavaldurinn Lína Birgitta Sigurðardóttir hafi brotið lög með færslum um þjónustu fyrirtækisins Sætar syndir á samfélagsmiðlinum Instagram. Neytendastofa telur færslurnar ekki hafa verið nægjanlega merktar sem kynning eða auglýsing. Rúmlega 24 þúsund fylgja Línu Birgittu á Instagram.

Fram kemur í úrskurði Neytendastofu að stofnuninni hafi borist ábending um færslurnar á Instagram-síðu Línu Birgittu. Hún er nokkuð vinsæl með áhrifavalda og er meðal annars með netverslunina Define the Line Sport.

Neytendastofa óskaði eftir upplýsingum frá Línu Birgittu, meðal annars hvort hún hefði fengið pening eða annað endurgjald fyrir umfjöllun sína. Stofnunin vildi vita hvert það endurgjald hefði verið, hver aðkoma hennar hefði verið að undirbúningi umfjöllunarinnar og hvort þriðji aðili hefði annast samskipti eða milligöngu hennar og fyrirtækisins. 

Í svari sínu til Neytendastofu segir Lína Birgitta að hún og eigandi Sætra synda séu vinkonur. Eigandinn hafi beðið hana um að prófa nýja vöru og segja hvað henni sé fyndist. Hún hafi sjálf viljað birta vöruna á Instagram og leggi það í vana sinn að merkja allt hjá sér sem samstarf.

Í úrskurði Neytendastofu segir að málið snúist um myndbirtingu á vörunni „High tea“ á Instagram-reikningi Línu Birgittu. Hún hafi fengið vöruna að gjöf frá Sætum syndum.  Fyrirtækið hafi greint Neytendastofu frá því að leitað hafi verið álits hjá Línu Birgittu á vörunni sem þá var á prufustigi. Annað endurgjald hafi ekki verið veitt. Fyrirtækið hafi ekki haft nein afskipti af umfjölluninni og Lína Birgitta hafi haft fulla stjórn á því hvernig henni yrði hagað.

Neytendastofa lagði því mat á hvort umræddar færslur hafi verið nægilegar merktar sem auglýsing. Síðan er rakið hvernig umfjölluninni var háttað og það er helst ein færsla sem fer fyrir brjóstið á Neytendastofu.  Þar eru myndir, ýmist af vörunni eða öðrum að njóta vörunnar. Færslan er ekki merkt sem auglýsing eða gefið til kynna með öðrum skýrum hætti að umfjöllunin sé kostuð. Aðeins sé að finna tengingu á Instagram-reikning Sætra synda við fyrstu myndina í færslunni.

Neytendastofa kemst því að þeirri niðurstöðu að Lína Birgitta hafi brotið gegn neytendalögum með færslum sínum. Er henni bannað að viðhafa slíka viðskiptahætti aftur og fari hún ekki að fyrirmælum má hún búast við sektum.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV