Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fékk skammir frá útvarpsráði fyrir óveðursfréttir

Mynd: RÚV / RÚV

Fékk skammir frá útvarpsráði fyrir óveðursfréttir

23.12.2020 - 09:55

Höfundar

Þorgeir Ástvaldsson á að baki langan feril í fjölmiðlum. Árið 1983 fékk Þorgeir krefjandi verkefni í hendurnar. Að koma Rás 2, nýrri útvarpsstöð innan Ríkisútvarpsins, í loftið. Stöðin hóf útsendingar 1. desember 1983 og Þorgeir var fyrsti dagskrárstjóri stöðvarinnar. Það voru þó ekki allir sáttir við Rás 2 fyrstu árin.

Ungt fólk hafði lengi kallað eftir útvarpsstöð sem sinnti dægurtónlist, eða popptónlist, betur en gert var á Rás 1. Þorgeir grunaði að Rás 2 myndi strax njóta mikilla vinsælda á meðal hlustenda en engu að síður brá honum í brún þegar fyrstu hlustunartölur birtust og í ljós kom að Rás 2 mældist með 78% hlustun. Þorgeir fór yfir þennan tíma með Margréti Blöndal í útvarpsþættinum Allt er þá þrennt er: Tempó, mónó og steríó sem fluttur verður kl. 10 á jóladag á Rás 2. 

Fyrst um sinn náðist útsending Rás 2 ekki um allt land og segir Þorgeir að sveitastjórar hafi reglulega hringt í sig og spurt hvenær bæjarfélag þeirra fengi sendi. Ónefndur bæjarstjóri sagði við Þorgeir að hann væri ekki maður með mönnum hjá ungu kynslóðinni í bæjarfélaginu að vera ekki búinn að útvega bænum þetta fyrirbrigði sem allir voru að bíða eftir.

En það voru ekki allir sáttir við útsendingar Rásar 2. Það kom reglulega fyrir að Þorgeir var kallaður á fund útvarpsráðs til að ræða það sem betur mætti fara í dagskránni, að mati ráðsins. „Þeir fundu náttúrulega fyrir því að þetta var gríðarleg hlustun og það var ákveðið vald fólgið í því að vera með þetta í höndunum, þó ég gerði mér enga grein fyrir því þá. Nema jú, ég fékk heimsóknir hér frá þingmönnum. Ég heyrði af sveitastjórum sem voru að bíða eftir sendi. Þannig að þessi undirtónn framkallaðist inn í útvarpsráð,” segir Þorgeir.

Þegar stöðin var ekki búinn að vera í loftinu nema í örfáa mánuði gerði aftakaveður á höfuðborgarsvæðinu. Stöðin var þá staðsett í kjallaranum í Efstaleiti 1 og engir gluggar voru við vinnusvæði starfsfólks og því hafði fólk ekki hugmynd um hversu slæmt veðrið var. Að lokum snjóaði í raun fyrir kjallarann og þau hreinlega hurfu ofan í einn skaflinn. Þau sem voru mætt komust ekki í burtu en þau sem áttu eftir að mæta komust ekki inn. „Síðasti maðurinn inn var Jónatan Garðarsson, sem komst inn við illan leik. Átti að vera hér með reggí-músíkþátt,” segir Þorgeir. Eftir að óveðrið skall á fór síminn að hringja á Rás 2. Það var verið að hringja frá barnaheimilum, skólum og fleiri stöðum og athuga með upplýsingar með færðina, hvað ætti að gera varðandi börnin og ýmislegt fleira. „Það varð allt vitlaust. Þetta hafði aldrei gerst,” segir Þorgeir um þennan magnaða dag. Hann ákvað að ýta allri hefðbundinni dagskrá til hliðar og þau sex sem mætt voru til vinna hófu í raun beina útsendingu, hálfgerða óveðursvakt. 

„Við vorum að svara í símann, við vorum að hringja í lögregluna og spyrja hvað hún var að gera. Þá vorum við ekki með björgunarsveitirnar, sá her var ekki til staðar í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Við fengum þarna leiðbeinandi hlutverk fyrir foreldra, fyrir ættmenni barna og alls konar praktísk erindi sem ber að hafa í huga og ber að hafa gát á þegar allt verður blint og ófærðin alveg svakaleg. Við vorum hér allan daginn. Hér í þessu húsi, innilokuð. Sumir meira að segja fáklæddir eins og Jónatan sem varð að fara í peysu sem buxur því hann kom hér holdvotur inn,” segir Þorgeir. Rétt fyrir miðnætti var hætt að snjóa og lögreglan mætti upp í Efstaleiti og bauðst til að keyra starfsfólki Rásar 2 til síns heima. 

Næsta dag bárust hins vegar óvæntar fréttir og Þorgeir fékk skammir frá útvarpsráði. „Það var það að breyta útsendingu Rásar 2 í óveðursútvarp, sem hafði ekki heyrst áður. Það var verið að tala við barnaheimili, lögregluna og alls konar fólk sem vildi koma boðum áleiðis. Þetta þótti mjög djarft,” segir Þorgeir, en á þessum tíma tíðkaðist ekki að aðrir sögðu fréttir af veðri en Veðurstofan. 

„Þetta var eitthvað sem fór illa í eyrun á ráðinu eða ráðamönnum. Hins vegar heyrðu þeir ekki það guðdómlega lof sem maður fékk í eyrun fyrir það að sjá til þess að blessuð börnin kæmust heim heil og höldnu í Breiðholti, Kópavogi og úthverfum höfuðborgarsvæðisins. Við fengum símtöl á símtöl ofan. Þykir nú lítið mál í dag. Svona dæmi um hvernig þetta fór ofan í kokið á sumum og öðrum ekki,”

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hrósaði þó Þorgeiri fyrir vel unnin störf eftir óveðrið. Hann fékk þá símhringingar frá Kára Jónassyni, Helga Péturssyni og Ingva Hrafni Jónssyni, sem allir störfuðu sem fréttamenn á þessum tíma. Eftirminnilegasta símtalið kom þó frá Ingva Hrafni segir Þorgeir. „Sæll Þorgeir, svona á að gera þetta. Bless,” sagði Ingvi Hrafn við Þorgeir.

Að sögn Þorgeirs hafði þarna opnast gátt að beinum útsendingum. Auðvitað ætti Ríkisútvarpið að gera miklu meira af því, að vera á staðnum þar sem hlutirnir eru að gerast og lýsa því sem fyrir augu ber. 

Þrátt fyrir að hafa nokkrum sinnum verið kallaður á teppið hjá útvarpsráði gekk samstarfið þó að mestu vel og þegar Þorgeir var valinn úr hópi umsækjenda til að gegna þessari stöðu hlaut hann atkvæði frá öllum í ráðinu nema einum. „Það var einn sem valdi mig ekki úr hópnum. Það vildi svo til að það var skólabróðir minn úr Langholtsskólanum. Hann baðst afsökunar á því einhvern tímann við mig. Hann hafði fengið boð um það frá ungliðahreyfingu Alþýðubandalagsins að ég væri ekki heppilegur í þessa stöðu, hún væri svo mikilvæg,” segir Þorgeir. 

Margrét Blöndal ræðir við Þorgeir Ástvaldsson um æskuna, frægðina og fjölmiðlaferilinn í þættinum Allt er þá þrennt er: Tempó, mónó og steríó á Rás 2 kl. 10 að morgni jóladags.