Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekki lengur talin skriðuhætta á Eskifirði

23.12.2020 - 16:29
Mynd með færslu
Jón Björn Hákonarson á fundi með samgönguráðherra og forsætisráðherra Mynd: Fjarðabyggð
Ekki er lengur talin skriðuhætta á Eskifirði, en eins og fram hefur komið þurfti að rýma þar hús við fimm götur á föstudag. Þeirri rýmingu var aflétt á sunnudag. Bæjarstjórinn segir nauðsynlegt að gera nýtt hættumat.

Sprungur opnuðust á tveimur stöðum í Oddsskarðsvegi en sigið þar hefur nú stöðvast og ekkert sigið frá því á laugardagskvöld. Bætt hefur verið við mælitækjum á þessu svæði og verður það vaktað næstu daga og vikur.

Íbúarnir upplýstir á rafrænum fundi

Jón Björn Hákonarson, bæjarsjóri í Fjarðabyggð, segir að haldinn hafi verið rafrænn íbúafundur með Eskifrðingum í gærkvöld. Þar hafi fulltrúar frá Almannavörnum og Veðurstofunni farið yfir stöðuna. Á fundinum hafi einnig komið fram gagnlegar upplýsingar og ábendingar frá íbúum. Þá hitti Jón Björn ráðherrana sem voru fyrir austan í gær og ræddi við þá um þessi mál.

Gera þurfi nýtt hættumat fyrir Eskifjörð

Í grein á vef Fjarðabyggðar segir Jón Björn að nú taki við eftirfylgni, en skoða verði nánar hvað sé að gerast á þessu svæði. „Nú þegar hefur verið sett upp öflugt eftirlit, Veðurstofan fylgist grannt með gangi mála og mun sjá um að gera frekari nauðsynlegar rannsóknir á svæðinu. Ég hef auk þess átt samtöl við ráðherra úr ríkisstjórn og lagt á það áherslu að nýtt hættumat sé nauðsynlegt fyrir Eskifjörð, sem og önnur svæði á landinu. Auk þess hef ég ítrekað þá kröfu sem Fjarðabyggð hefur lengi haldið á lofti, að nauðsynlegt sé að tryggja að fjármagn sé nægt til að klára allar ofanflóðavarnir á Íslandi og að samfella sé í þeim framkvæmdum. Samtölin við ráðherrana voru góð og við munum í framhaldinu áfram eiga um þetta viðræður.“