Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ekki hægt að gera áætlanir fyrir fleiri bóluefni núna

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir allt vera uppi á borðum varðandi komu bóluefna hingað til lands. Undirbúningur bólusetninga hafi gengið vel og að ekkert sé óljóst í þessum efnum. Ekki hefur verið ákveðið hver fær fyrstu bólusetninguna hér á landi. Þingmenn Miðflokksins hafa farið fram á að Alþingi komi saman á milli jóla og nýárs vegna óvissu um komu bóluefna. Aðrir stjórnarandstöðuflokkar taka undir þetta. 

Þórólfur segir að þegar forgangshópar hafi verið bólusettir verði byrjað á þeim sem elstir eru og síðan farið niður aldursröðina.

„Þá náum við líka þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þannig að við fikrum okkur þannig niður listann,“ segir Þórólfur.

Hann segir að ekki sé hægt að gera bólusetningaráætlanir fyrir önnur bóluefni sem Ísland mun fá fyrr en þau fá markaðsleyfi. „Það er ekkert bóluefni búið að fá markaðsleyfi núna, nema Pfizer bóluefnið þannig að það þýðir ekkert að vera að kalla eftir dreifingaráætlunum á öðrum bóluefnum sem ekki eru með markaðsleyfi. Við erum í nákvæmlega sömu sporum og öll önnur Evrópulönd og það er ekkert öðruvísi með áætlanir um bólusetningu hér eða annars staðar.“

Ekki búið að ákveða hver verður bólusettur fyrstur

Þórólfur segir að ekki hafi verið ákveðið hver verði bólusettur fyrstur hér á landi.

„Það er verið að vinna í því. Landspítalinn er búinn að tilgreina einhverja einstaklinga og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er búin að tilgreina einhverja.  Ég er ekkert að fylgjast með því, þau sjá bara um það og það verður spennandi að sjá hverjir það verða,“ segir Þórólfur.