Arnar Sveinsson, sem lögreglan á Austurlandi lýsti eftir 2. desember síðastliðinn, er fundinn erlendis heill á húfi. Síðast hafði spurst til hans í Berlín í september, en hann fór til Þýskalands nokkru áður.
Arnars var leitað í Berlín í samstarfi við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins og sendiráð Íslands í Þýskalandi, auk þýsku lögreglunnar, Evrópulögreglunnar Europol og Alþjóðalögreglunnar Interpol, en óformleg eftirgrennslan hófst um miðjan september.
Ákveðið var að lýsa eftir honum að ósk ættingja hans hér á landi.