Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Yfirdeild MDE: Ríkið braut ekki gegn Gesti og Ragnari

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Íslenska ríkið braut ekki gegn lögmönnunum Gesti Jónssyni og Ragnari Hall þegar þeir voru sektaðir um eina milljón króna hvor fyrir að segja sig frá málsvörn í Al Thani-málinu fyrir rúmum sjö árum. Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu staðfesti í morgun dóm Mannréttindadómstólsins sem féll í október árið 2018.

Sektaðir fyrir að segja sig frá málsvörn

Gestur og Ragnar sögðu sig frá málsvörninni í apríl 2013. Þeir rökstuddu það á þá lund að ítrekað hefði verið brotið á rétti skjólstæðinga þeirra, Sigurðar Einarssonar og Ólafs Ólafssonar, til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið. Dómari hafði þá hafnað beiðni lögmannanna um að fá lengri frest til að undirbúa málshöfðunina.

Ragnar og Gestur boðuðu þá til blaðamannafundar þar sem þeir tilkynntu að þeir segðu sig frá málinu. Dómari hafnaði þeirri ákvörðun en þeir stóðu við hana og mættu ekki við aðalmeðferð málsins. Þá þurfti að skipa nýja verjendur og því var málinu frestað. Þegar dómur var kveðinn upp kom í ljós að fjölskipaður héraðsdómur hafði ákveðið að sekta lögmennina tvo fyrir að segja sig frá málsvörninni.

MDE hafnaði málsástæðum

Þeir fóru með málið fyrir Mannréttindadómstólinn sem kvað upp dóm í október 2018. Þeir báru fyrir sig að á þeim hefði verið brotið með sektunum: Þeim hefðu verið dæmdar sektirnar að þeim sjálfum fjarstöddum og þeir því ekki haft færi á að grípa til varna fyrir Héraðsdómi, aðeins fyrir Hæstarétti. Þeir hefðu aðeins fengið að verjast fyrir einu dómstigi og ekki verið verjendur í málinu við meðferð þess fyrir dómi. Þeir töldu því óeðlilegt að hegna þeim sem verjendum í málinu og að sektin hefði verið hærri en vænta mátti miðað við dómafordæmi. Auk þess væri ekkert ákvæði um hámark sektarfjárhæða í lögum.

Mannréttindadómstóllinn hafnaði öllum málsástæðum lögmannanna tveggja, nema þeirri að þeir hafi aðeins fengið að verjast fyrir einum dómstóli en þeim lið er vísað frá dómnum. Ragnar og Gestur sendu þá yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu erindi með beiðni um að málið yrði tekið fyrir þar. 

Yfirdeildin staðfesti dóminn

Yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu samþykkti að taka málið fyrir og hefur nú staðfest dóminn. Í dómi yfirdeildarinnar segir að greinar sex og sjö í Mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögmennirnir vísuðu til sér til varnar, ættu ekki við í þessu tilviki, meðal annars vegna þess að þær næðu ekki yfir sektir eins og þær sem málið snerist um. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV