Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vill selja fjórðungshlut í Íslandsbanka

22.12.2020 - 21:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stefnt verður að því að selja fjórðung af eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka á næsta ári og verður ágóðinn meðal annars notaður til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Þetta kemur fram í greinargerð sem fjármálaráðherra birti í dag.

Fjármálaráðherra féllst í síðustu viku á tillögu Bankasýslu ríkisins um að hefja sölumeðferð á Íslandsbanka. Bankinn hefur að fullu verið í eigu ríkisins frá árinu 2015.

Í greinargerð sem ráðherra birti í dag kemur fram að í fyrstu sé stefnt að því að selja allt að 25 prósenta hlut í bankanum, háð því að markaðsaðstæður verði hagfelldar. Áætlað er að ferlið takið að lágmarki fimm mánuði og er eingöngu horft til skráningar á markaði hérlendis.

Innan vissra tímamarka verði þó stefnt að framhaldi á sölu þannig að meirihluti og jafnvel allur hlutur ríkisins verði seldur á hlutabréfamarkaði.

Í greinargerðinni kemur fram að við sölu á eignarhlutanum verði reynt að fylgja markmiðum um dreift eignarhald og að söluferlið verði opið og gagnsætt.

Fjármálaráðherra hefur sagt að verðmæti bankans sé á bilinu 130 til 140 milljarðar. Miðað þetta ætti fjórðunghlutur að skila ríkissjóði rúmum þrjátíu milljörðum.

Í greinargerðinni kemur ennfremur fram að söluverðmætið verði meðal annars notað til minnka skuldsetningu eða auka svigrúm ríkisins til samfélagslegra fjárfestinga.

Ráðherra hefur óskað eftir því að Seðlabanki Íslands og einnig fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis skili umsögn um málið í næsta mánuði. Endanleg ákvörðun um söluferlið verður svo tekin þegar þeirri vinnu lýkur.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV