Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þriðji maðurinn ákærður í Lockerbie-málinu

22.12.2020 - 02:18
epa08898235 US Attorney General William Barr participates in a news conference to provide an update on the investigation of the terrorist bombing of  Pan Am flight 103 on the 32nd anniversary of the attack, at the US Department of Justice in Washington, DC, USA, 21 December 2020. The terrorist bombing of Pan Am flight 103 occurred 21 December 1988, killing all 259 people on the plane and eleven on the ground.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Bandarísk yfirvöld tilkynntu í gær, mánudag að ákæra hafi verið gefin út gegn Líbíumanninum Abu Agila Mohammad Masud fyrir hryðjuverk. Masud er grunaður um að hafa sett saman sprengjuna sem grandaði þotu bandaríska flugfélagsins Pan Am yfir bænum Lockerbie í Skotlandi fyrir réttum 32 árum.

Þess verður krafist að Masud verði framseldur svo hægt verða að rétta yfir honum í Bandaríkjunum en því er haldið fram að Masud hafi starfað að fyrirmælum Moammars Ghadafi þáverandi leiðtoga Líbíu.

Boeing 747 breiðþotan var á leið frá Lundúnum til New York þegar hún var sprengd í loft upp. Alls fórust 270, 190 þeirra voru bandarískir ríkisborgarar þar af 35 háskólanemar á leið heim í jólafrí.

Ellefu fórust á jörðu niðri þegar logandi flak þotunnar féll til jarðar en aldrei hafa fleiri farist í hryðjuverkaárás á Bretlandseyjum. Aðeins einu sinni hafa fleiri Bandaríkjamenn farist í hryðjuverkaárás framinni í flugvél. 

Bill Barr, núverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, var í sömu stöðu árið 1991 þegar tveir Líbíumenn voru ákærðir fyrir ódæðið. Hann tilkynnti ákæruna gegn Masud og sagði einskis yrði látið ófreistað við að komast að sannleikanum í málinu.

Hann kvaðst bjartsýnn á að Masud verði framseldur og fagnaði því að réttlætið næði loks fram að ganga yfir manninnum sem bæri ábyrgð á dauða fjöldmargra Bandaríkjamanna.

Iain Livingstone, ríkislögreglustjóri í Skotlandi kveður merkum áfanga náð í málinu og að áfram verði unnið náið með bandarískum yfirvöldum. Að öðru leyti taldi hann ekki við hæfi að tjá sig frekar um málið.