Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Svífandi pylsubrauð og Lottóþvottavél í Gerðarsafni

Mynd: RÚV / RÚV

Svífandi pylsubrauð og Lottóþvottavél í Gerðarsafni

22.12.2020 - 14:11

Höfundar

Magnús Helgason og Ólöf Helga Helgadóttir, myndlistarmenn frá Akureyri, leggja undir sig Gerðarsafn á fjórðu sýningunni í röðinni Skúlptúr/skúlptúr.

Skúlptúr/skúlptúr skiptist í tvær einkasýningar. Í öðru rýminu hefur Magnús Helgason hreiðrað um sig með sýninguna Shit hvað allt er gott en í salnum andspænis er sýning Ólafar Helgu, Hrist ryk á steini. Magnús lýsir sýningunni sinni sem segulstálamyndlistarsýningu. 

„Hér eru nokkur verk sem ég skapaði á Akureyri og kom með hingað í Kópavog. Ég byrjaði með fjögur eða fimm verk sem voru undirbúin, kom svo hingað, setti sýninguna þannig að það eru nokkur segulstálverk í forgrunni og svo bind ég sýninguna saman. Geri að innsetningu með því að mála veggina og bæti við smáatriðum hér og þar,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Pylsubrauðin fá loksins þann sess sem þau eiga skilinn á sýningunni.

Á meðal þess sem ber fyrir augu eru skyndibitabrauð, sem með aðstoð segulstála, líta út fyrir að svífa í lausu lofti. „Mér finnst skemmtilegt að taka eitthvað lítið og ómerkilegt og setja það á stall. Það er litið niður á brauð í dag, mest af öllu skyndibitabrauð, hamborgara- og pylsubrauð. En hér lyfti ég þeim á stall í merkilegu listasafni og reyni að gefa þeim þá virðingu sem þau eiga skilið,“ segir Magnús sem kveðst þó ekki vera að reyna að breyta heiminum með list sinni. „Ég er ekki að fjalla um stjórnmál eða með vangaveltur um samfélagið. Mér finnst eftirsóknarverk að gestir á sýningunni upplifi verkin án allra útskýringa, verði jafnvel hissa og skilji ekkert í neinu. Þetta er leitin að barninu í sjálfum sér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólöf sýnir meðal annars gardínur frá æskuheimili sínu.

Á sýningu Ólafar Helgu eru þrjú verk sem hún vann öll fyrir sýninguna. „Mig langaði að nýta gólfflötinn, ekki hafa neitt á veggjunum og hafa fá verk sem myndu skapa heild og vera frekar aðgengileg,“ segir hún.

Það fyrsta sem grípur augað er þetta veggur á miðju gólfi hulinn rauðum gardínum. „Þetta eru gardínur sem hengu uppi á æskuheimili mínu í Grindavík í kringum 1980. Það sem var svo skemmtilegt er að þau smellpössuðu utan um færanlega vegginn í þessu rými. Ég vildi nýta vegginn, fela hann og gera hann að skúlptúr.“

Á gólfinu fyrir miðju salar er skúlptúr sem Ólöf Helga vann úr tveimur öðrum skúlptúrum. „Verkið heitir Skúlptúr étur skúlptúr, og það er í rauninni það sem hefur gerst.“ 

Þriðja verkið er vídeó- og hljóðverk. Myndband af þvottavél sem á vindingu en inn í henni eru lottókúlúr sem birtast reglulega á glugganum. „Ég er ekki með neinn boðskap í sjálfu sér. Vil bara að verkin taki á móti fólki og það upplifi þetta sjálft.“

Fjallað var um sýninguna Skúlptúr/skúlptúr í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan. 

 

Tengdar fréttir

Myndlist

Blómleg flugeldasýning í garðinum heima

Tónlist

Snorri Björns mælir með