Skúlptúr/skúlptúr skiptist í tvær einkasýningar. Í öðru rýminu hefur Magnús Helgason hreiðrað um sig með sýninguna Shit hvað allt er gott en í salnum andspænis er sýning Ólafar Helgu, Hrist ryk á steini. Magnús lýsir sýningunni sinni sem segulstálamyndlistarsýningu.
„Hér eru nokkur verk sem ég skapaði á Akureyri og kom með hingað í Kópavog. Ég byrjaði með fjögur eða fimm verk sem voru undirbúin, kom svo hingað, setti sýninguna þannig að það eru nokkur segulstálverk í forgrunni og svo bind ég sýninguna saman. Geri að innsetningu með því að mála veggina og bæti við smáatriðum hér og þar,“ segir hann.