Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Sjúklingar mega ekki heimsækja aðstandendur um jólin

22.12.2020 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sjúklingum sem liggja inni á Landspítalanum verður ekki heimilt að heimsækja aðstandendur yfir hátíðarnar. Farsóttanefnd spítalans greindi frá þessu í kvöld og Már Kristjánsson, formaður nefndarinnar, segir að öðruvísi sé ekki hægt að tryggja öryggi sjúklinga sem deili gjarnan stofum með fleirum.

„Það er engin leið fyrir okkur að vita hverjir eða hversu margir eru í heimsóknum. Og margir liggja með tveimur eða þremur öðrum sjúklingum á stofu. Ef fólk færi í heimsóknir og kæmi aftur gætum við ekki tryggt öryggi hinna sjúklinganna,“ segir Már í samtali við fréttastofu.

Deildarstjórar meta aðstæður til heimsókna

Hann minnir á að aðstandendur megi heimsækja sjúklinga og segir að deildarstjórar deildanna hafi það hlutverk að vega og meta aðstæður til þess að hjálpa sjúklingum og aðstandendum að eiga samverustundir yfir hátíðarnar. „Heimsóknartíminn er knappur en það er þá kannski hægt að fá fólk inn til sjúklinga í einbýli, ef þannig stendur á,“ segir hann.

Aðspurður hvort hann hafi búist við að spítalinn þyrfti að setja reglur sem þessar yfir hátíðarnar segir hann að það hafi verið ljóst fyrir löngu að það færi eftir stöðunni á faraldrinum í aðdraganda jóla. „Við vorum alveg undir þetta búin en vissum ekki hvernig kringumstæðurnar yrðu. Ef það hefði ekki verið neitt smit síðustu þrjár vikur þá hefði þetta ekki verið ákvörðunin, en af því það er þó þessi fjöldi smita í samfélaginu þá þurftum við að ákveða þetta,“ segir hann.

Drógu lærdóm af hópsmitinu á Landakoti

Hann bendir á að spítalinn hafi dregið lærdóm af hópsmitinu á Landakoti og að ef smit slyppi inn á spítalann með sjúklingi sem hefði farið í heimsóknir yfir hátíðarnar væri voðinn vís.

Í tilkynningu á vef Landspítalans segir að farsóttarnefndin harmi að þurfa að viðhafa svo strangar sóttvarnaráðstafanir, en að reynslan sýni að komist smit inn á legudeild aukist líkur á að fólk sem þar dvelji, oft í fjölbýlum, smitist: „Aðstæður á spítalanum eru líka þannig að erfitt getur verið að tempra útbreiðslu smits milli sjúklinga.“ 

Ákvörðunin sé vel ígrunduð og með öryggi og hag sjúklinga á Landspítala að leiðarljósi. Reglurnar gildi þó ekki um fólk sem dvelur á spítalanum og hefur fengið COVID-19.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV