Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Jólamessurnar með breyttu sniði í Danmörku

22.12.2020 - 02:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þótt jólaguðsþjónustur verði ekki bannaðar í Danmörku þetta árið er ætlast til að þær verði með breyttu sniði. Kirkjumálaráðuneytið danska hefur gefið út viðmiðunarreglur um hvernig best sé að standa að málum á tímum kórónuveirufaraldursins.

Í fyrsta lagi mega guðsþjónustur ekki vara lengur en 45 til 50 mínútur og viðhafa þarf strangar sóttvarnarráðstafanir gefnar út af heilbrigðisyfirvöldum. Heimilt verður að safnast þá saman í bílum fyrir utan kirkjur meðan guðsþjónustunni er streymt.

Þetta á einkum við í stórum söfnuðum þar sem búist er við fjölmenni við messu. Auk þessa er fólki ráðlagt að láta hjá líða að syngja í kirkjunni, betra sé að raula fyrir munni sér meðan kórinn syngur eða að láta duga að spila jólatónlist án þess að sungið sé með.