Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Joe Biden bólusettur við COVID-19

epa08806891 President-elect Joe Biden (C) on stage during a celebratory event held outside of the Chase Center in Wilmington, Delaware, USA, 07 November 2020. Major news organizations have called the US presidential election 2020 for democrat Joe Biden, defeating incumbent US President Donald J. Trump.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Joe Biden. Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden tilvonandi Bandaríkjaforseti var bólusettur við COVID-19 í dag. Það var gert í beinni útsendingu í sjónvarpi þar sem forsetaefninu var gefið bóluefnið frá Pfizer.

Biden sagðist þiggja bóluefnið til að sýna fram á að ekkert væri að óttast, hann kvaðst hlakka til að fá seinni sprautuna. Fólk ætti eindregið að láta bólusetja sig þegar að því kæmi. 

Jill, eiginkona Bidens, var bólusett fyrr sama dag. Biden sagði jafnframt að Donald Trump forseti og ríkisstjórn hans ættu heiður skilinn fyrir að hleypa bólusetningarátakinu af stokkunum í Bandaríkjunum.

Trump sjálfur hefur enn ekki tilkynnt hvenær hann verður bólusettur en segist hlakka til þess, þegar að því kæmi. Búist er við að Kamala Harris, tilvonandi varaforseti og Doug Emhoff eiginmaður hennar verði bólusett í næstu viku.

Biden og stjórn hans hyggjast sjá til að 100 milljónir verði bólusettar á fyrstu hundrað dögum stjórnartíðar sinnar en talið er að um hálf milljón Bandaríkjamanna hafi þegar fengið bóluefni gegn kórónuveirunni. 

Um 18 milljónir hafa sýkst af COVID-19 í Bandaríkjunum og 317 þúsund hafa látist af völdum sjúkdómsins.