
Íslenskur bógur í Færeyjum ári yngri eftir Spánarferð
Annar límmiði undir
Fréttamaður færeyska Kringvarpsins afhjúpaði þetta misræmi í merkingum í gærkvöldi. Merkingar frá heildsölunni Krás bentu til þess að kjötið væri af nýslátruðu, en þegar límmiðanum var flett af reyndist annar límmiði undir, útbúinn af Kaupfélagi Skagfirðinga og á spænsku, Paletilla frá árinu 2019. Af upphaflegu merkingunni mátti sem sagt ráða að bógurinn væri ári eldri en merkingar Kras sögðu til um.
Matvælastofnunin gerði athugasemdir
Kringvarpið fullyrðir að framleiðsludagsetningin á íslensku bógunum sé nær undantekningarlaust röng, ekki sé þar að finna upplýsingar um hvenær slátrað var, heldur hvenær heildsalinn, Krás, verðlagði vöruna. Matvælastofnun Færeyja segir þetta ekki í lagi, það megi ekki villa um fyrir neytendum. Framleiðsludagur, sé ekki pökkunardagur eða verðlagningardagur heldur framleiðsludagur. Forsvarsmaður Krás vildi ekki meina að reglur hefðu verið brotnar en að hugsanlega hefði mátt haga merkingunni öðruvísi.
Paletilla varð bógv út af heimsfaraldrinum
Ágúst Andrésson, forstöðumaður Kaupfélags Skagfirðinga, staðfestir að kjötið sé frá árinu 2019, KS seldi það stórum heildsala á Spáni, sem sér ferðamannamarkaði á Kanarí og víðar fyrir kjöti. Vegna kórónuveirufaraldursins og hruns í ferðaþjónustu sá heildsalinn ekki fram á að geta selt kjötið á Spáni og seldi því gám af því til Færeyja.