Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ísland sat hjá við fordæmingu á nasisma

epa04947535 United Nations Headquarters' General Assembly Building (L) and Secretariat Building (R) in New York City, New York, USA, 24 September 2015. Pope Francis will address the UN General Assembly 25 September and the UN Development Summit and General Assembly will take place from 25 September through 03 October with more than 150 heads of state in attendance.  EPA/MATT CAMPBELL
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. Mynd: EPA
Ísland sat hjá þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um fordæmingu nasisma, nýnasisma og annarra hátta sem ýta undir rasisma á miðvikudaginn. Aðeins Úkraína og Bandaríkin greiddu atkvæði gegn ályktuninni.

Atkvæði um ályktunina voru greidd á 75. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem öll 193 aðildarríki samtakanna eiga sæti. Þar voru meðal annars greidd atkvæði um tillögu „um baráttu gegn upphafningu nasisma, nýnasisma og annarra hátta sem eiga þátt í að auka ýta undir birtingarmyndir rasisma, mismununar á grundvelli kynþáttar, útlendingahaturs og umburðarleysi í tengslum við það.“ Tillagan var lögð fram sameiginlega af 24 ríkjum, þar á meðal Rússlandi og Kína. Sambærileg tillaga hefur verið lögð fram á hverju allsherjarþingi undanfarin ár.

Alls greiddu 130 ríki atkvæði með ályktuninni, 51 ríki sat hjá og tvö greiddu atkvæði gegn henni. Ísrael greiddi atkvæði með henni en auk Íslands sátu meðal annars Þýskaland, Danmörk, Noregur, Finnland, Svíþjóð og Bretland hjá. Einfaldan meirihluta þarf á allsherjarþinginu til að samþykkja tillögur sem þessa.

Eftir að sambærileg tillaga um baráttu gegn nasisma var samþykkt í fyrra vann E. Tendayi Achiume, lögfræðingur og sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málum er varða birtingarmyndir kynþáttafordóma, skýrslu sem kom út 28. ágúst á þessu ári. Þar kom meðal annars fram að vegna kórónuveirufaraldursins hefði tilvikum þar sem gyðingar verða fyrir fordómum eða ofbeldi fjölgað.

Við atkvæðagreiðsluna í fyrra gerði fulltrúi Bandaríkjanna á allsherjarþinginu grein fyrir atkvæði sínu. Hann sagði að tillagan væri „meinfýsin og illa dulbúin tilraun Rússa til að sverta orðspor nágrannaríkja sinna undir því yfirvarpi að berjast gegn uppgangi nasisma.“ Tjáningarfrelsi væri einn af hornsteinum bandarísks samfélags, hluti af stjórnarskrá landsins. Réttur nasista og þeirra sem aðhylltust skylda hugmyndafræði til að tjá sig væri varinn af dómafordæmi hæstaréttar Bandaríkjanna. Engu að síður væru bandarísk stjórnvöld algjörlega andsnúin hugmyndafræði haturs.