Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hvetja ríki til að draga úr takmörkunum gagnvart Bretum

22.12.2020 - 17:49
epa08899580 Lorry queues at the entrance to the port in Dover, Britain, 22 December 2020. France has closed its border with the UK for 48 hours over concerns about the new coronavirus variant. Freight lorries cannot cross by sea or through the Eurotunnel and the Port of Dover has closed to outbound traffic.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hvatt aðildarríkin til að aflétta hömlum á ferðir og vöruflutning frá Bretlandi. Yfirvöld langflestra Evrópusambandsríkja hafa gripið til sérstakra ráðstafana til að varna því að nýtt afbrigði kórónuveirunnar, sem hefur smitast hratt milli fólks á Bretlandi, berist til ríkjanna. Afbrigðið er ekki talið hættulegra en önnur afbrigði kórónuveirunnar en talið er að það smitist hraðar milli fólks.

Bretland og Frakkland hafa í dag átt í viðræðum um þær ferðatakmarkanir sem Frakkar hafa sett Bretum. Dover-höfnin í suðausturhluta Bretlands fylltist af vörubílum sem komust ekki leiðar sinnar þegar frönsk yfirvöld kynntu strangar ferða- og flutningstakmarkanir um helgina. Fjöldi vörubílstjóra hefur sofið í bílunum tvær nætur í röð og bresk yfirvöld óttast yfirvofandi vöruskort. Þá hafa franskir matvöruinnflytjendur lýst yfir áhyggjum af fiski frá Bretlandi sem kemst ekki til landsins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur biðlað til aðildarríkjanna að þau leyfi komur frá Bretlandi, ekki síst til þess að tryggja að viðskipti geti haldið áfram með eðlilegum hætti. Það yrði gert með því skilyrði að fólk viðhafi sóttkví við komuna og verði skimað, en að vörubílstjórar ættu ekki að þurfa þess.

Þrátt fyrir tilmæli framkvæmdastjórnarinnar má búast við að yfirvöld margra ríkjanna haldi aðgerðunum til streitu, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.  

Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í gær að það væru aðallega þau ríki sem ekki hefðu jafnafgerandi sóttvarnaráðstafanir á landamærum og Ísland, sem nú gripu til ráðstafana til að takmarka komur breskra ferðamanna. Afbrigðið hefur greinst á landamærunum hér að minnsta kosti einu sinni en það smitaði ekki út frá sér.