Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flutti jólakveðju með krökkum

Mynd: RÚV / RÚV

Flutti jólakveðju með krökkum

22.12.2020 - 13:43

Höfundar

Sigvaldi Júlíusson hefur um árabil lesið jólakveðjur Íslendinga í Ríkisútvarpinu á Þorláksmessu. Gestir Krakkakiljunnar á Rás 1 hittu Sigvalda og fengu ráð frá honum um það hvernig best væri að lesa þær inn.

Krakkakiljan á Rás 1 er í jólastuði yfir hátíðarnar og í þáttum á aðventunni og milli jóla og nýárs er áherslan á sögur af jólunum. Í einum þeirra var fjallað um hina sígildu kvæðabók, Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum sem kom út árið 1932. Bókin hefur rækilega fest sig í sessi í íslenskri jólahefð og hugmyndir okkar og sögur um jólasveinana þekkja flestir þaðan.

Bókin hefur líka gengið kynslóða á milli og í þáttinn komu tveir góðir gestir sem þekkja vel til í Krakkakiljunni, þau Kári og Vigdís. Þau kunna kvæðin utan að og hafa lesið hana spjaldanna á milli, fram og til baka. En þau kynntu sér líka aðra ríka jólahefð, jólakveðjurnar í Ríkisútvarpinu sem fluttar eru á Þorláksmessu og 22. desember. Einn þeirra þula sem lesa kveðjurnar er Sigvaldi Júlíusson, sem ætti að vera flestum hlustendum vel kunnugur. Sigvaldi var gestur þáttarins ásamt Kára og Vigdísi. Krakkarnir fræddust betur um kveðjurnar og hvað þarf að hafa í huga þegar þær eru lesnar inn. Saman lásu þau inn jólakveðju til landsmanna frá KrakkaRÚV.

Viðtalið við Sigvalda og jólakveðjuna má heyra í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ellefu ára stelpa samdi jólasögu fyrir útvarpið