Sex sóttvarnahólf
Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi Hjálpræðishersins á Íslandi, segir að fjöldinn sem hefur skráð sig í jólamatinn sé svipaður eða jafnvel meiri en undanfarin ár. Borðhaldið verði þó ekki eins og venjulega vegna covid-19.
„Við þurfum að skipta upp í sex sóttvarnahólf því við höfum sali og salernin og slíkt fyrir það. Í hverju hólfi mega aðeins vera 15 fullorðnir. Það er er eiginlega mesta málið. Þetta hefðu ekki verið neitt mál ef við hefðum bara mátt halda veislu í stóra salnum. Það að skipta þessu svona niður er áskorun. Að öðru leyti er þetta eins og venjulega, góður matur og fínar gjafir,“ segir Hjördís.
Jólaveislan verður í nýjum húsakynnum Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut 72 - kannski ekki í alfaraleið eins Herkastalinn var í miðbæ Reykjavíkur. Hjördís bendir á að fólk komi úr öllum áttum og líka úr öðrum bæjarfélögum. Eitthvað virðist þó ganga erfiðlega hjá Google maps að uppfæra hvar nýju bækistöðvarnar eru.
„ Svo er það strætó. Hann hættir að ganga klukkan þrjú á aðfangadag þannig að fólkið okkar á erfitt með að koma sér heim. Við eru því bundin af því að vera búin klukkan þrjú.“
Mikill einmanaleiki
Þetta veldur því að í stað þess að setjast til borðs klukkan sex byrjar borðhaldið klukkan hálf tólf. Flestir þeir sem koma í jólamatinn eiga ekki kost á að vera saman með ættingjum og vinum á aðfangadag. En hvernig tekst þessum hópi að fóta sig á tímum covid-19?
„Það er mikill einmanaleiki. Það er mest það að fólki finnst það mjög einangrað og einmana. Fyrir marga er það svo sem daglegt brauð. Þetta fólk er oft mjög einangrað en það finnur kannski enn frekar fyrir því núna. En allir er mjög glaðir sem koma til okkar á jólunum og hlakkar til að koma,“ segir Hjördís.