Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Berjum ekki fólk í hausinn með Biblíunni

22.12.2020 - 17:00
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Um þrjú hundruð manns ætla að mæta í jólaboð Hjálpræðishersins í Reykjavík á aðfangadag. Mun fleiri sóttu um nú fyrir jólin en í fyrra um að fá jólaaðstoð frá Hernum. Svæðisforingi segir að Hjálpræðisherinn eigi enn fullt erindi. Starfið snúist ekki um að berja fólk í höfuðið með Biblíunni.

Sex sóttvarnahólf

Hjördís Kristinsdóttir, svæðisforingi Hjálpræðishersins á Íslandi, segir að fjöldinn sem hefur skráð sig í jólamatinn sé svipaður eða jafnvel meiri en undanfarin ár. Borðhaldið verði þó ekki eins og venjulega vegna covid-19.

„Við þurfum að skipta upp í sex sóttvarnahólf því við höfum sali og salernin og slíkt fyrir það. Í hverju hólfi mega aðeins vera 15 fullorðnir. Það er er eiginlega mesta málið. Þetta hefðu ekki verið neitt mál ef við hefðum bara mátt halda veislu í stóra salnum. Það að skipta þessu svona niður er áskorun. Að öðru leyti er þetta eins og venjulega, góður matur og fínar gjafir,“ segir Hjördís.

Jólaveislan verður í nýjum húsakynnum Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut 72 - kannski ekki í alfaraleið eins Herkastalinn var í miðbæ Reykjavíkur. Hjördís bendir á að fólk komi úr öllum áttum og líka úr öðrum bæjarfélögum. Eitthvað virðist þó ganga erfiðlega hjá Google maps að uppfæra hvar nýju bækistöðvarnar eru.

„ Svo er það strætó. Hann hættir að ganga klukkan þrjú á aðfangadag þannig að fólkið okkar á erfitt með að koma sér heim. Við eru því bundin af því að vera búin klukkan þrjú.“

Mikill einmanaleiki

Þetta veldur því að í stað þess að setjast til borðs klukkan sex byrjar borðhaldið klukkan hálf tólf. Flestir þeir sem koma í jólamatinn eiga ekki kost á að vera saman með ættingjum og vinum á aðfangadag. En hvernig tekst þessum hópi að fóta sig á tímum covid-19?

„Það er mikill einmanaleiki. Það er mest það að fólki finnst það mjög einangrað og einmana. Fyrir marga er það svo sem daglegt brauð. Þetta fólk er oft mjög einangrað en það finnur kannski enn frekar fyrir því núna. En allir er mjög glaðir sem koma til okkar á jólunum og hlakkar til að koma,“ segir Hjördís.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Jólapakkar Hjálpræðishersins

Allir fangar fá jólapakka

Það er ekki bara jólamaturinn sem boðið er upp á. Þegar komið er inn blasa við tvö herbergi nær troðfull af pökkum.

„Allir sem koma til okkar á aðfangadag fá gjafir, bæði fullorðnir og börn. Svo eru hérna pakkar sem fara í öll fangelsi landsins. Allir þeir sem eru í fangelsi yfir jólin fá pakka frá okkur.“

Fleiri sækja um aðstoð

Fyrir jól býður Hjálpræðisherinn upp á jólalaaðstoð. Sækja þarf sérstaklega um hana. Rösklega tvöfalt fleiri fá aðstoð nú fyrir þessi jól en í fyrra.

„Það voru á sjöunda hundrað sem sóttu um hjá okkur. Við einbeitum okkur að einstaklingum og barnlausum pörum. Þegar búið var að fara yfir umsóknirnar  þá voru vel á fimmta hundrað sem fengu úthlutað.  Það eru úttektarkort í matvöruverslunum og matur sem okkur hefur borist. Til að setja þetta í samhengi  þá úthlutuðum við 174 kortum til einstaklinga og para.“

 Hjördís segir að rekja megi þessa fjölgun til afleiðinga faraldursins.

„Við sjáum að það er mjög mikið núna um það að fólk sem hefur verið atvinnulaust í langan tíma og sem átti kannski ekki full réttindi sem sækir um núna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Nýi herkastalinn

Þvo af sér og fara í sturtu

En starf Hersins snýst ekki aðeins um jólahaldið. Hjördís segir að  það sé opið alla virka daga í hádeginu.

„Fólk getur þá komið og fengið heitan mat sem er okkar skjólstæðingum þeim að kostnaðarlausu. Við rekum líka Hertex verslanir þar sem fólk getur fengið hjá okkur kort til að versla þar. Þannig að við erum ekki að ákveða í hvað buxum þú átt að vera eða þannig. Fólk getur bara farið og valið sér þann fatnað eða húsbúnað sem það vantar. Það er í gangi allt árið. Við erum líka í þessu nýja húsnæði aðstöðu fyrir fólk að þvo af sér og fara í sturtu. Það er ný þjónusta. Síðan erum við með annað starf eins og til dæmis að aðstoða börn með heimanám. Við erum líka með opið hús fyrir börn og unglinga á miðvikudögum og heitan mat. Svo erum við líka með safnaðarstarf fyrir aðra hópa,“ segir Hjördís.

Herinn 125 ára

Hjálpræðisherinn hefur starfað á Íslandi í 125 ár. Starfsemin hófst með útisamkomu á Lækjartorgi og samkomu í Góðtemplarahúsinu. 1898 hófst svo rekstur gistiheimilis í Herkastalanum við Kirkjustræti 2 í Reykjavík. Seinna voru svo gistiheimili opnuð víða um land. Það kannast sjálfsagt flestir við Herópið og söfnunarpottinn eða jólapottinn. Upphaf Hjálpræðishersins má rekja til ársins 1865 þegar hjónin Catherine og William Booth hófu að bera út fagnaðarerindið í fátækrahverfinu Whitechapel í London. En á Hjálpræðisherinn enn erindi í íslensku samfélagi?

„Algjörlega. Mér finnst alveg merkilegt að sú sýn sem William Booth og Catherine settu fyrir Hjálpræðisherinn 1865 að hún á enn þá við. Það er í raun og veru að vera vinur hins vinalausa, að vera til staðar fyrir þá sem eru undiroka í samfélaginu. Stefnuyfirlýsing Hjálpræðishersins er í raun að boða trúa á Jesú Krist og vera til staðar fyrir þá sem minna mega sín í samfélaginu vegna þess að það er trúin sem hvetur okkur til góðra verka. Það er í raun það sem er inntakið. Við erum ekki að berja fólk í hausinn með Biblíunni. Það er ekki það sem við viljum. Það er trúin sem drífur okkur áfram og við viljum vera hendur og fætur Jesú Krists. Það er okkar hugsjón hér á jörðu þannig að fólk geti fundið að það sé einhvers staðar gott að koma og það sé kærleikur, ást og umhyggja sem mætir þér. Hvaðan sem þú ert að koma eða hver sem þú ert,“ segir Hjördís Kristinsdóttir.