Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Allt gert til að koma henni út af bráðamóttökunni“

22.12.2020 - 15:13
Mynd: aðsend / rúv
Læknir á bráðamóttöku Landspítalans vanrækti skyldur sínar gagnvart sjúklingi sem leitaði þangað í mars og lést nokkrum klukkustundum eftir útskrift. Þetta er mat landlæknis sem hefur gert úttekt á málinu. Útskrift sjúklingsins var ótímabær og illa undirbyggð.

42 ára kona, Eygló Svava Kristjánsdóttir, leitaði á bráðadeild Landspítalans fimmtudagskvöldið 26. mars með skerta meðvitund og slappleika. Einum og hálfum tíma síðar tók læknir ákvörðun um að senda hana heim. Morguninn eftir kom faðir hennar að henni látinni í rúminu sínu. 

Niðurstaða úttektar Embættis landlæknis á málinu er sláandi. Engar rannsóknir voru gerðar á Eygló Svövu, ekki tekin blóð- eða þvagprufa, ekki gerð lífsmarkamæling og sjúkrasaga hennar ekki könnuð. Er það mat landlæknis að ef grundvallarrannsóknir hefðu verið gerðar hefði mögulega verið hægt að koma í veg fyrir ótímabært dauðsfall Eyglóar Svövu.

Í tvígang lögð inn á spítala með sömu einkenni

Telur landlæknir að ábyrgur læknir hafi ekki hafa áttað sig á veikindum hennar og lagt á herslu á að finna rök fyrir útskrift í stað þess að útiloka alvarlegar ástæður fyrir veikindunum. 

Eygló Svava hafði í tvígang, 2017 og 2018, verið lögð inn á spítala með sýklasóttarlost, mjög alvarlegt ástand sem blóðsýking veldur. Dánartíðni alvarlegrar sýklasóttar, eða blóðeitrunar, er mjög há, allt upp í 50 prósent og er skjót meðferð mjög mikilvæg. Einkennin eru meðal annars slappleiki, skert meðvitund og ruglástand. Allt einkenni sem Eygló Svava hafði þegar hún leitaði á bráðamóttökuna í mars. 

Segja heimsfaraldur notaðan sem afsökun fyrir andlátinu

Fjölskylda Eyglóar Svövu gagnrýnir viðbrögð Landspítalans; segir starfsfólk fara með rangindi um atvik málsins og meðal annars nota heimsfaraldur kórónuveiru til að afsaka andlátið. 

„Það er svo augljóst að allt var gert til þess að koma henni út af bráðamóttökunni sem fyrst. Það er skrítið til þess að hugsa en hvað var í gangi þetta kvöld inni á bráðamóttökunni? Það var ekkert álag, ég er búin að fá staðfestingu á því. Hvað var fólkið að gera? Hún dettur af skoðanaborði og það gleymist að láta vita af því. Og engar prufur teknar. Maður skilur þetta ekki,“ segir Kristján Ingólfsson, faðir Eyglóar Svövu.

„Að það sé verið að nota þennan heimsfaraldur til að afsaka andlát dóttur okkar. Að vegna heimsfaraldurs og vegna álags á bráðamóttökunni. Við vitum að það var ekkert álag. Heimsfaraldur hafði engin áhrif þarna þetta kvöld á veru dóttur minnar. Við viljum að það komi skýrt fram. Þetta er jú dóttir mín. Sem mér þótti mjög vænt um. Og ég vil ekki að aðilar komist upp með að vera valdir að andláti hennar. Eins og segir hjá landlækni. Ef það hefði verið verklag eins og á að vera í þessu tilfelli hefði mögulega verið hægt að komast hjá andláti Eyglóar Svövu. Þetta er mat landlæknis. Og það er ekki hægt annað en að einhver beri ábyrgð á því,“ segir Kristján.

Ítarlega verður fjallað  um málið og rætt við föður Eyglóar Svövu í fréttum klukkan 19 og Kastljósi í kvöld.