Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Undirbúa dreifingu bóluefnis hér á landi

21.12.2020 - 22:23
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica sem sér um dreifingu bóluefnis Pfizer hér á landi segir að það verði mikil áskorun að tryggja að efnið komist til allra landsmanna. Bólusetningar eiga hefjast milli jóla og nýárs.

Von er 10 þúsund bóluefnaskömmtum frá Pfizer hingað til lands á mánudag í næstu viku og þá eiga bólusetningar að hefjast. Síðan koma 3 þúsund skammtar í hverri viku eftir það en í heild er von á 170 þúsund skömmtum af þessu bóluefni sem eiga duga fyrir 85 þúsund manns.

Bóluefnið þarf að geyma við 70 til 80 stiga frost. Fyrirtækið Distica sér um að dreifa efninu.

„Það er búinn að vera mikill undirbúningur í marga mánuði hjá okkur. Auðvitað erum við ekki vön að flytja bóluefni við þessar aðstæður í svona miklu frosti. Þannig að það er eitthvað sem er nýtt fyrir okkur og mesti undirbúningurinn hefur farið í þá vinnu,“ segir Júlía.

Notast verður við sérstaka hitastýrða bíla til að flytja bóluefnið á milli landshluta.

„Við þurfum að dreifa bóluefninu í þurrís. Þurrís getur haldið 80 stiga frosti þannig að við munum nota þurrís en svo hýsum við hjá okkur í Distica í 80 gráðu frysti,“ segir Júlía.

Hún segir að það verði áskorun að tryggja óskerta flutninga á milli landshluta á þessum árstíma.

„Við erum að fara inn í erfiðustu mánuðu ársins hvað varðar flutning á vegum hér á landi. Það er allra veðra von. En við erum með góðar umbúðir og erum klár í þetta,“ segir Júlía.