Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Örvæntingarfullt fólk kvíðir jólunum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fólk sem klárað hefur rétt sinn í bótakerfinu kvíðir mjög jólum og óttast að geta ekki gefið börnum sínum í skóinn. Nauðsynlegt er að þétta öryggisnet velferðarkerfisins og lengja rétt til atvinnuleysisbóta, segir Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands.

Þetta skrifar Drífa í pistli á heimasíðu ASÍ sem ber titilinn „Lof og last og jól“.

Ríkisstjórnin ákvað fyrir skömmu að framlengja tekjutengingu atvinnuleysisbóta í hálft ár sem þýðir að fleiri fá tekjutengdar bætur lengur. Atvinnuleysi af völdum kórónuveirufaraldursins er í hæstu hæðum, almennt atvinnuleysi var 10,6% í nóvember sem er nokkur aukning frá fyrri mánuðum en ögn minna en spár gerðu ráð fyrir, 10,8%. Atvinnuleysið var 9,9% í október, 9,0% í september og 8,5% í ágúst.

Drífa fagnar framlengingu tekjutengingar sem og hækkunar grunnbóta sem tekur gildi á næsta ári. Þá verða þær 307.403 krónur hjá þeim sem eiga 100% bótarétt en eru nú 289.510 kr. fyrir sama hóp, sem er 17.893 kr. hækkun. „En betur má ef duga skal,“ segir Drífa.

Mörgum þröngur stakkur sniðinn í aðdraganda jóla

„Við búum við kerfi sem á að grípa fólk og í þessum makalausu aðstæðum er eins gott að þétta öryggisnetið þannig að það þjóni sínum tilgangi. Nú berast okkur örvæntingarfull skilaboð frá fólki sem hefur klárað rétt sinn í bótakerfinu og er afar þröngur stakkur sniðinn, getur ekki gefið börnunum í skóinn og kvíðir jólunum. Algert forgangsatriði er að lengja rétt til atvinnuleysisbóta þangað til landið fer að rísa því á mörgum sviðum og svæðum er einfaldlega enga vinnu að fá,“ skrifar hún enn fremur.

Drífa telur lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði fagnaðarefni en frumvarp þess efnis er nú rætt á þingi og útlit fyrir að það verði að lögum. Þetta séu umtalsverðar framfarir fyrir foreldra og verður vonandi til þess að samvistir barna við báða foreldra aukast og stuðlar að meira jafnrétti innan veggja heimilis sem utan.

Stjórnvöld þurfa að gera margt til að bæta hag almennings

Hún segir stjórnvöld lengi hafa haft á sinni könnu ýmis mál sem bæta myndu hag almennings en þau hafi ekki verið leidd til lykta. Þar á meðal eru ný starfskjaralög með ákvæðum um févíti fyrir launaþjófnað og ný húsaleigulög, aðgerðir til að afnema verðtryggingu, aðgerðaáætlun gegn mansali og breytingar á lífeyrislögum.

Hvað verkefni verkalýðshreyfingarinnar á næsta ári varðar segir hún þau næg. Hreyfingin muni einkum beita sér til að tryggja afkomuöryggi fólks og að kórónuveirufaraldrinum ljúki „með jafnara og sanngjarnara samfélagi“.

Það sé „ekkert smá verkefni en með samstilltu átaki öflugrar hreyfingar munum við ná árangri“.

Leiðrétt kl. 09:15: Lög um fæðingarorlof voru samþykkt fyrir þinglok á föstudaginn.