
Kanadamenn hyggjast deila bóluefni með öðrum
Trudeau kveðst staðráðinn í að láta bólusetja sig gegn COVID-19 opinberlega. Hann ætli þó að bíða uns röðin komi að fólki í hans aldurshópi, en hann verður 49 ára á jóladag. Þessi orð lét hann falla í áramótaviðtali við CTV sjónvarpsstöðina í gær.
Bólusetningar hófust 14. desember í Kanada með áherslu á framlínuheilbrigðisstarfsfólk ásamt íbúum og starfsfólki hjúkrunarheimila. Kanada hefur enn sem komið er aðeins fengið tiltölulega fáa skammta af bóluefni frá Pfizer.
Sophie, eiginkona Trudeaus, smitaðist af COVID-19 í mars, og þá fór hann í sjálfskipaða sóttkví um hálfs mánaðar skeið. Í viðtalinu segir hann að mögulega hafi hann smitast en haft mjög væg einkenni, nánast engin.
Nú er beðið heimildar til notkunar bóluefnis Moderna í Kanada en það gæti gerst á næstu vikum samkvæmt heimildum þarlendra heilbrigðisyfirvalda.