Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kanadamenn hyggjast deila bóluefni með öðrum

epa05272835 Justin Trudeau, Prime Minister of Canada speaks at a press briefing on the topic of the Paris Agreement on climate change at the United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 22 April 2016. The Paris Agreement was adopted in Paris,
 Mynd: EPA
Alls hafa Kanadamenn pantað yfir 400 milljónir skammta af bóluefni frá sjö framleiðendum, en þar búa þó aðeins 38 milljónir manna. Því sem þeir ekki þurfa sjálfir hyggjast þeir deila með öðrum ríkjum að sögn Justins Trudeau forsætisráðherra landsins.

Trudeau kveðst staðráðinn í að láta bólusetja sig gegn COVID-19 opinberlega. Hann ætli þó að bíða uns röðin komi að fólki í hans aldurshópi, en hann verður 49 ára á jóladag. Þessi orð lét hann falla í áramótaviðtali við CTV sjónvarpsstöðina í gær.

Bólusetningar hófust 14. desember í Kanada með áherslu á framlínuheilbrigðisstarfsfólk ásamt íbúum og starfsfólki hjúkrunarheimila. Kanada hefur enn sem komið er aðeins fengið tiltölulega fáa skammta af bóluefni frá Pfizer.

Sophie, eiginkona Trudeaus, smitaðist af COVID-19 í mars, og þá fór hann í sjálfskipaða sóttkví um hálfs mánaðar skeið. Í viðtalinu segir hann að mögulega hafi hann smitast en haft mjög væg einkenni, nánast engin.

Nú er beðið heimildar til notkunar bóluefnis Moderna í Kanada en það gæti gerst á næstu vikum samkvæmt heimildum þarlendra heilbrigðisyfirvalda.