Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Innkalla hættulega „pikkler“ leikfangaklifurgrind

21.12.2020 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Neytendastofa
Neytendastofa hefur fyrirskipað innköllun og bannað sölu og afhendingu á leikfangaklifurgrind, „pikkler“, frá Sigurði Valgeirssyni. Í nýrri tilkynningu á vef Neytendastofu segir að af klifurgrindinni stafi hengingarhætta þar sem börn geti fest höfuðið milli rimlanna. Þá sé hún völt og geti oltið á hliðina. Þeir sem eiga klifurgrind af þessari gerð eru hvattir til að skila henni til seljanda.

„Leikfangið var ekki CE merkt né með aðrar viðeigandi merkingar eða leiðbeiningar. Þá var ekki hægt að sjá að klifurgrindin hefði verið prófuð til að athuga hvort að leikfangið uppfylli allar öryggiskröfur sem gerðar eru til leikfangaklifurgrinda,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Þetta kom í ljós við eftirlit Neytendastofu í tengslum við þátttöku í samstarfsverkefni með vörueftirlitsstjórnvöldum í Evrópu. Markmið verkefnisins var að kanna öryggi stærri leikfanga á íslenskum markaði og hvort þau stæðust viðeigandi lágmarkskröfur.

Í tilkynningunni minnir Neytendastofa á að ekki megi selja leikföng nema þau sé CE-merkt. „Merkið þýðir að varan hafi verið prófuð miðað við ætlaða notkun og þann aldurshóp sem varan er framleidd fyrir. Ef varan er í lagi og stenst allar prófanir ásamt því að allar merkingar og leiðbeiningar séu til staðar má setja CE merkið á vöruna.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV