Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrstu skammtarnir af bóluefni væntanlegir 28. desember

21.12.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Fyrstu skammtarnir af bóluefni frá Pfizer eru væntanlegir til landsins 28. desember, að því gefnu að markaðsleyfi fyrir bóluefnið verði gefið út í Evrópu. Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu var gestur á upplýsingafundi Almannavarna í morgun.

„Við vitum núna að við fáum tæplega 10.000 skammta frá Pfizer 28. desember. Við erum svo með ákveðinn fjölda skammta tryggðan út mars,“ segir Ásta. 

Von er á um fimmtíu þúsund skömmtum á tímabilinu frá Pfizer. En þegar allt er talið saman er búið að tryggja þjóðinni mun meira.

„Nú þegar höfum við tryggt bóluefni fyrir um 200 þúsund manns, með Astra-samningnum og Pfizer-samningnum. Með þremur samningum, Astra, Pfizer og Jansen eru tryggðir skammtar fyrir alla þjóðina, og rúmlega það, eða 376 þúsund, jafnvel 435 þúsund þar sem að það er talið að Jansen bóluefnið þurfi aðeins að gefa einu sinni,“ segir Ásta.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að bólusetja meiri hluta þjóðarinnar á næstu mánuðum með þeim samningum sem hafa verið gerðir.  

„Þegar ég segi næstu mánuðum geta það verið 3, 4, 5 mánuðir. Við verðum bara að sýna þolinmæði eins og aðrar þjóðir,“ segir Ásta.

Þróun bóluefnisins hefur tekið ótrúlega skamman tíma. Búist er við að bóluefnið frá Pfizer fái markaðsleyfi. Rúna Hauksdóttir Hvennberg, forstjóri Lyfjastofnunar var einnig gestur fundarins í morgun.Hún segir að engar tilsklakanir hafi verið gefnar í þróun bóluefnisins þó að eftirvæntingin sé mikil. 

„Bóluefni gegn COVID-19 hafa verið prófuð á tugþúsundum manna, ég tel mikilvægt að nefna að það er meira en gerist og gengur í þróun bóluefna alla jafna. Algengustu þekkyu aukaverkanir Pfizer bóluefnisins eru frekar vægar og hverfa eftir nokkra daga,“ segir Rósa. 

Sjö greindust með kórónuveirusmit innanlands í gær. Tveir þeirra voru utan sóttkvíar við greiningu. Þrjú smit greindust við landamærin og beðið er niðurstöðu mótefnamælingar úr einu sýni.