Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fleiri setja upp jólatré nú en í fyrra

21.12.2020 - 16:44
Mynd með færslu
 Mynd: T. Rampersad - Unsplash
Fleiri Íslendingar ætla að setja upp jólatré í ár en í fyrra. Ekkert lát er á vinsældum gervijólatrjáa en tæplega 60 prósent ætla að setja upp gervitré þessi jólin.

Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.

Þeim Íslendingum sem kjósa gervijólatré fram yfir lifandi hefur fjölgað hægt og býtandi frá því MMR byrjaði að kanna jólatrjáakaup landans árið 2010. Nú ætla 58 prósent þeirra sem setja upp jólatré fyrir hátíðarnar að setja upp gervijólatré.

 

Hlutfall þeirra sem ætla að setja upp lifandi tré hefur minnkað um 14 prósentustig frá 2010 og er nú 28%. Alls segjast 14 prósent ekki ætla að setja upp tré og fækkar þeim hópi um þrjú prósentustig milli ára. Engu að síður hefur þeim heilt yfir fjölgað sem sleppa jólatrénu sé litið til þróunar síðasta áratuginn. Fyrir tíu árum sögðust níu prósent aðspurðra ekki ætla að setja upp tré.

Konur kjósa fremur gervitré en karlar eða 61 prósent á móti 54%. Karlar er líklegri til að setja ekki upp tré, 18 prósent á móti 11% kvenna. Landsbyggðarbúar velja frekar gervijólatré en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, en 61% þeirra velur gervitré en 58% þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Svarendur 68 ára og eldri eru líklegri en þeir sem í öðrum aldurshópum eru til að setja ekki upp tré, alls 24%. Þeir sem eru milli 30-49 ára voru líklegastir til að segjast ætla að setja upp jólatré eða 90% og velja af þeim 60 prósent gervitré.

Stuðningsfólk Vinstri-grænna, Framsóknarflokks og Samfylkingar er líklegast til að velja lifandi jólatré en stuðningsfólk Miðflokksins og Viðreisnar er líklegra til að velja gervitré. Alls ætla 31 prósent þeirra sem styðja Pírata ekki að setja upp jólatré á heimilum sínum í ár.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV