Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fasteignamarkaður líflegur á árinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sögulega lágir vextir, góðir lánamöguleikar og sterkur kaupmáttur skýrir lífleg fasteignaviðskipti að undanförnu. Ástandið mun þó aðeins tekist að róast og færri íbúðir skráðar til sölu enda mikið selst á árinu.

Þetta kemur fram í viðtali Morgunblaðsins við Kjartan Hallgeirsson formann Félags fasteignasala í dag. Haft er eftir honum að í ár sé reiknað með 20 prósent fleiri samningum vegna fasteignaviðskipta en voru að meðaltali gerðir árin 2016 til 2019.

Við svo mikla eftirspurn segir Kjartan að verð hafi hækkað en hagstæð lánakjör hafi orðið til þess að ungt fjölskyldufólk hafi keypt sérbýli og raðhús. Hins vegar hafi úrval fjölbýlishúsa fyrir fólk sextíu ára og eldra orðið til þess að það minnkaði við sig og stærri eignir orðið fáanlegar á markaðnum.

Sérbýli á Seltjarnarnesi og í Garðabæ séu vinsæl líkt og raunin sé með vesturbæ Reykjavíkur og Fossvogshverfi. „Breiðholt og Grafarvogur eru orðin gróin hverfi byggð fyrir áratugum og margir sem þar ólust upp vilja halda sig við heimaslóðirnar. Bæði þessi hverfi koma vel út í sölu, eins og fleiri,“ segir Kjartan Hallgeirsson í Morgunblaðinu í dag.