Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Færeyingar fagna nýjum jarðgöngum

21.12.2020 - 11:13
Mynd með færslu
 Mynd: eysturoyartunnilin p/f /Facebook
Færeyingar fögnuðu sögulegum tímamótum um helgina þegar 11 kílómetra göng sem tengja Þórshöfn í Færeyjum við Austurey, næst fjölmennustu eyju Færeyja voru tekin formlega í notkun. Þúsundir bíla óku í gegn, og ökumenn kærðu sig kollótta þó þeir sætu fastir í umferðarteppu í  göngunum í klukkustund, svo mikil var gleðin.

Gangnagerðin hófst árið 2017 og var fjármögnuð með vegtollum. Göngin liggja undir sjó og stytta akstursleiðina milli Þórshafnar og Austureyjar úr 55 kílómetrum í 17. Í göngunum er tilkomumikið neðansjávarhringtorg, sem líkist marglyttu. Breska blaðið Guardian segir það það fyrsta í heimi. Þá prýðir göngin 18 metra há höggmynd eftir listamanninn Trónd Pattursson. Búist er við því að nýju göngin verði vinsæl meðal ferðamanna. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV