Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Facebook lokar á spjalleiginleika í Evrópu

Mynd með færslu
 Mynd:
Til að bregðast við breyttum reglum Evrópusambandsins um persónuvernd hefur Facebook fjarlægt ýmsa eiginleika í samskiptaforritinu Messenger og samfélagsmiðlinum Instagram. Enn er þó hægt að senda skilaboð og hringja hljóð- og myndsímtöl.

Í dag tóku gildi breytingar á evrópskum reglum um persónuvernd sem kallast ePrivacy. Nú falla samskiptaforrit undir reglurnar og bandaríski tæknirisinn Facebook hefur gripið til þess ráðs að hætta að bjóða upp á ákveðna eiginleika í forritunum Messenger og Instagram til að tryggja að þjónustan sé í fullu samræmi við reglurnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Facebook.

Facebook segir að fyrirtækið noti gögn úr samskiptum á Messenger og Instagram til að koma í veg fyrir dreifingu á efni sem inniheldur barnaníð. ePrivacy-reglurnar geri það ókleift. Framkvæmdastjórn ESB segir að aðferðir Facebook til að hindra dreifingu á slíku efnis eigi sér ekki lagastoð. Fyrirtækið vonast til þess að geta leyst málið og tryggt að þjónusta þess sé ekki notuð til að dreifa barnaníðsefni og uppfylli um leið allar kröfur um öryggi og persónuvernd. 

Facebook hefur ekki birt tæmandi lista yfir þá þjónustu og notkunarmöguleika sem hætt er að bjóða upp á í Evrópu samkvæmt frétt The Verge. Breytingarnar hafi verið teknar í skrefum og því geti sumir notendur enn notað ákveðna eiginleika. Að sögn Facebook verða allir eiginleikar virkjaðir aftur um leið og öruggt er að þeir uppfylli staðlana. 

Meðal þess sem lokað hefur verið fyrir eru spurningakannanir í hópspjalli á Messenger. Þá er ekki lengur hægt að breyta nöfnum þeirra sem spjallað er við og ekki er lengur hægt að nota viðbótarveruleika-filter (e. augmented reality filter) í beinum skilaboðum á Instagram eða senda svokallaða límmiða.