Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Daginn tekur að lengja frá deginum í dag

21.12.2020 - 10:02
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Nú klukkan 10:02 eru vetrarsólstöður á norðurhveli jarðarinnar. Í Reykjavík rís sólin kl. 11:22 og sest 15:29 svo fullrar dagsbirtu nýtur í aðeins 4 stundir og 7 mínútur. Frá og með deginum í dag tekur daginn að lengja á ný. Júpíter og Satrúnus hafa ekki verið eins nálægt hvor annarri í rúm 400 ár.

Í kvöld verða Júpíter og Satúrnus sérlega þétt saman á himni. Raunar hafa þær ekki verið svona nálægt hvor annarri, frá Jörðu séð, síðan 16. júlí árið 1623. Líklega sá enginn samstöðuna þá. Þá voru pláneturnar svo nálægt sólinni að það reyndist ómögulegt að greina þær. Fara þarf alla leið aftur til Sturlungaaldar til að finna álíka þétta samstöðu plánetnanna sem lá vel við athugun, nánar tiltekið þann 4. mars árið 1226. Sama ár og Viðeyjarklaustur var stofnað. Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum.

Pláneturnar hafa verið að nálgast hver aðra á himninum í haust og í kvöld verður bilið á milli þeirra minnst. 0,1 gráða skilur þær að og þær virka sem ein pláneta á himninum.  Þó eru næstum 800 milljón kílómetrar á milli þeirra. Satúrnus er nú um stundir 1,6 milljarða km frá Jörðu en Júpíter tæpa 900 milljónir km frá okkur. 

Ölítill möguleiki að greina samstöðuna hér á landi

Samstaða sem þessi gerist á tæplega 20 ára fresti. Þær eru þó ekki allar eins góðar. Júpíter er um það bil 12 ár að ganga um sólina en Satúrnus tæp 30. Á nálega 20 ára fresti tekur Júpíter „framúr“ Satúrnusi. Þá er sem pláneturnar tvær mætist á himninum og eiga stefnumót. Í tungumáli stjörnufræðinnar er þetta kallað samstaða.

Örlítill möguleiki er fyrir Íslendinga að greina samstöðu Júpíter og Satrúnusar. Mesti möguleikinn er um kl 17 seinnipartinn í dag. Sunnlengingar eiga meiri möguleika en þeir sem eru norðarlega á landinu.Þegar orðið er nógu dimmt í Reykjavík verður tvíeykið aðeins 3 gráður fyrir ofan sjóndeildarhring. Þær hverfa undir sjóndeildarhringinn um klukkan 18. 

Sólin dvelur skemmst í Grímsey í dag. Þar kemur sólin upp kl 12:03 og sest á ný rúmu 2 klukkustundum síðar kl 14:17. sjá má sólargang á fleiri stöðum á landinu á heimsíðu Veðurstofunnar.