Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn fylgjast grannt með nýju afbrigði

Moncef Slaoui, aðal vísindaráðgjafi bóluefnaáætlunar Bandaríkjastjórnar, Warp Speed.
 Mynd: epa
Yfirvöld í Bandaríkjunum fylgjast grannt með framvindu mála varðandi hið nýja afbrigði kórónuveirunnar sem kom upp á Bretlandseyjum fyrir skömmu. Enn hefur þó ekki verið tekin ákvörðun um að banna ferðalög þangað eða þaðan.

Moncef Slaoui, sem stýrir bólusetningarverkefni Bandaríkjastjórnar, telur mestar líkur á að bóluefni ráði við nýja afbrigðið. Brett Giroir hershöfðingi yfirmaður skimana við kórónuveirunni segir ekki ástæðu til að bregðast við að svo stöddu.

Hans mat er að enn sé ekki þörf á að feta í fótspor þeirra ríkja sem hafa bannað lendingar farþegaflugvéla frá Bretlandi en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvatti Evrópulönd í dag til að herða frekar aðgerðir til að hefta útbreiðslu þessa afbrigðis veirunnar.