Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

276 íbúar ekki komnir til síns heima á Seyðisfirði

21.12.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Enn eru rýmingar í gildi á Seyðisfirði vegna hættu á aurskriðum. 305 íbúar fengu að snúa til síns heima síðdegiss í gær en bærinn var allur rýmdur á föstudag eftir að stór aurskriða féll á bæinn.

Að mati ofanflóðasérfræðinga Veðurstofu Íslands og samstarfsaðila er enn hætta á skriðuföllum á ákveðnum svæðum og verða þau áfram rýmd. Því geta 276 íbúar ekki snúið heim að svo stöddu.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Alls þurfti 581 íbúi á Seyðisfirði að yfirgefa heimili sitt á föstudag.

Almannavarnir opna Þjónustumiðstöð fyrir íbúa Seuðisfjarðar og þar verður annast upplýsingagjöf til almennings og þjónustu fyrir þá sem hafa orðið fyrir tjóni. Ákveðið var að færa Seyðisfjörð af neyðarstigi niður á hættustig í gær og búið er aflétta rýmingu á Eskifirði.
Samráðsfundur almannavarna, viðbragðsaðila, veðurstofu og stofnana verður haldinn klukkan tíu. 

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar ætla að fara austur á Seyðisfjörð á morgun til að kanna aðstæður og sýna fólki stuðning.