Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Viðurkennir mistök varðandi áætlað magn bóluefnis

20.12.2020 - 03:31
epa08892825 A pharmacy worker prepares doses of the Pfizer-BioTech coronavirus disease (COVID-19) vaccine at vaccination clinic in a University of Washington medical center in Seattle, Washington, USA, 18 December 2020. Healthcare workers are among the first to be vaccinated throughout the United States.  EPA-EFE/STEPHEN BRASHEAR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Gustave Perna hershöfðingi sem hefur yfirumsjón með dreifingu bóluefna um Bandaríkin kveðst bera ábyrgð á misskilningi sem kviknaði um hve marga skammta bóluefnis hvert ríki fengi í sinn hlut.

Á annan tug ríkisstjóra hefur lýst áhyggjum yfir því að minna bærist þeim af bóluefni Pfizer/BioNTech í næstu viku en upphaflega var lofað. Perna segir mistök sín liggja í að hann hafi áætlað ranglega þann fjölda skammta sem tilbúnir væru til afhendingar.

Misræmi hefði verið milli magnsins sem áætlað að afhenda og þess sem raunverulega var tilbúið. „Það var ég sem gaf samþykki fyrir því hve miklu yrði dreift og hvert skammtarnir færu, skipulagsmistök" segir hann og bætir við að það séu engin vandamál uppi varðandi dreifingu bólefna Pfizer og Moderna.

Þegar hefðu 2,9 milljónir skammta af bóluefni Pfizer verið afhentir og ætlunin væri að dreifa um það bil 20 milljónum skammta beggja bóluefna fyrstu vikuna í janúar.

Jafnframt tilkynnti Perna að dreifing bóluefnis Moderna væri hafin. Fyrstu flutningabílarnir lögðu af stað með efnið frá verksmiðjum fyrirtækisins í Bloomington í Indiana-ríki í gær en Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna veitti neyðarleyfi til notkunar þess á föstudag.