Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tillögur að ofanflóðavörnum á Seyðisfirði kynntar í vor

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Næsta vor eiga að liggja fyrir tillögur um ofanflóðavarnir á Seyðisfirði, segir umhverfisráðherra. Ekki sé verið að draga lappirnar. Til standi að finna leið til að drena vatn úr jarðlögum

Sveitarstjórar á Austfjörðum hafa kallað eftir ákveðnum aðgerðum og fjármagni í ofanflóðavarnir. Umhverfisráðherra segir rannsóknir síðustu ára hafi leitt af sér nýtt hættumat sem staðfest hafi verið í mars og feli í sér að reisa þurfi varnarmannvirki.

„Í gangi eru forathuganir á því með hvaða hætti við getum byggt upp varanlegar varnir. Þær tillögur eiga að vera tilbúnar næsta vor og fela meðal annars í sér að sía vatnið úr þessum jarðlögum til þess að það séu minni líkur á því að jarðvegurinn fari af stað,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sem jafnframt er ráðherra ofanflóðavarna.

Ríkisstjórnin hafi aukið fjármagn til ofanflóðavarna.

„Frá og með næsta ári erum við að bæta einum komma sex milljarði við einn komma einn milljarð sem þegar er fyrir,“ segir Guðmundur Ingi.

Með þessu eigi að vera unnt að ráðast fyrr í gerð varnarmannvirkja. 

„Ég vil nú ekki meina að það sé verið að draga lappirnar. Við erum í fjölmörgum verkefnum nú þegar,“ segir Guðmundur Ingi.

Ert þú á leiðinni austur á Seyðisfjörð?

„Ja, ég býð stjórnvöldum fyrir austan upp á fund á morgun og síðan sé ég til. Við erum í miðjum COVID-faraldri þannig að við verðum bara að sjá til hvort ég fari. En það fara alla vega einhverjir úr ríkisstjórninni og ég veit að forsætisráðherra ætlar sér að fara,“ segir Guðmundur Ingi.