Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir ljósmynda frá Seyðisfirði týndust í skriðunum

Zuhaitz Akizu forstöðumaður Tæknisafnsins á Austurlandi
 Mynd: Aðsend - Ljósmynd
Fjögur af þeim sex húsum, sem hýsa starfsemi Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði skemmdust í aurskriðunum sem féllu í bænum og meirihluti safnmuna er líklega gjörónýtur. Zuhaitz Akizu Gardoki forstöðumaður safnsins segir að þarna hafi óbætanlegar menningarminjar horfið, en vonast til að öryggisskápur sem geymir mörg þúsund ljósmyndir frá Seyðisfirði, sumar meira en hundrað ára gamlar, komi í leitirnar.

„Þetta er mjög alvarlegt, en við eigum eftir að meta tjónið,“ segir Zuhaitz. Hann segir að húsin sex hafi ýmist hýst sýningar, skrifstofur eða safngeymslur. Seyðisfjarðarbær var rýmdur í fyrradag eftir að síðari aurskriðan féll og starfsfólki safnsins hefur ekki hefur gefist ráðrúm til að leggja mat á stöðuna.

Meðal bygginga safnsins sem skemmdust mikið er Vél­smiðja Jóhanns Hans­sonar, frá árinu 1906. Zuhaitz segir að talsvert af aur hafi hlaðist upp í kringum hana. „Við vonumst til að geta endurbyggt hana,“ segir hann. „En það er líklega eina byggingin af þessu fjórum þar sem það er möguleiki.“

Zuhaitz segir að önnur bygging, 800 fermetra fyrrum skipasmíðastöð sem byggð var seint á 19. öld og hýsti trésmíðaverkstæði sé bókstaflega horfin. „Hún hvarf með öllum munum“

„Svo er Prentsmiðjuhúsið,  Hafnargata 38a, með gömlum prentvélum og verkstæði farið,“ segir Zuhaitz en í húsinu voru líka skrifstofur safnsins og skjalasafn þess. 

Meðal gripa safnsins er safn um 8.000 ljósmynda frá Seyðisfirði og eru þær elstu frá upphafi 20. aldar. Zuhaitz segir að þær hafi verið geymdar í eldtraustum öryggisskáp í einu húsanna sem skemmdist. Hann vonast til að skápurinn finnist og að innihaldið muni reynast óskemmt. 

„Það væri dásamlegt ef það myndi gerast,“ segir hann.

Á Tækniminjasafninu er lögð áhersla á tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Safnið er einnig byggðasafn Seyðfirðinga. Zuhaitz segir að bæði Þjóðminjasafnið og Minjastofnun hafi boðið fram aðstoð sína við uppbyggingu safnsins og er ákaflega þakklátur fyrir það. „Það er svo mikil óvissa núna. Það hefur ekki verið hægt að meta ástandið og erfitt að segja til um næstu skref. En ég vona sannarlega að safnið verði opnað að nýju.“