Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stjórnvöld leiðrétta frétt Bloomberg um bóluefnakaup

epa08895670 Boxes containing the Moderna COVID-19 vaccine sit in a packing box to be shipped from the McKesson distribution center in Olive Branch, Mississippi, USA, 20 December 2020. Moderna's coronavirus vaccine, approved by US Food and Drug Administration (FDA) on 17 December, will be distributed to more than 3,700 locations in the US, according to reports.  EPA-EFE/PAUL SANCYA / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Heilbrigðisráðuneytið hefur sent fréttaveitunni Bloomberg athugasemd vegna fréttaflutnings hennar af þeim fjölda kórónuveirubóluefnisskammta sem Bloomberg fullyrti að Ísland hefði tryggt sér. Í frétt Bloomberg sagði að Ísland væri meðal þeirra landa sem hefðu tryggt sér minnst af bóluefninu allra vestrænna þjóða. Í athugasemd ráðuneytisins segir að Ísland hafi tryggt sér að minnsta kosti 635.000 skammta sem dugi til að bólusetja 87% þjóðarinnar.

„Í gegnum þátttöku Íslands í sameiginlegum innkaupum Evrópusambandsins á bóluefni hefur Ísland tryggt sér samtals 635.000 skammta af bóluefni sem duga til að bólusetja 317.500 manns sem eru 87% þjóðarinnar og meira en 100% allra fullorðinna Íslendinga,“ segir í athugasemdinni.

„Það samanstendur af 170.000 skömmtum af bóluefni Pfizer/BioNTech, 230.000 skömmtum af bóluefni AstraZeneca og 235.000 skömmtum frá Janssen/Johnson&Johnson,“ segir í athugasemdinni og þar segir ennfremur að búist sé við að samningar um kaup á síðastnefnda bóluefninu verði undirritaðir í lok ársins.

Þessu til viðbótar séu samningar við lyfjafyrirtækið Moderna í bígerð.