Mynd: RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.
Ráðherrar COVID-skimaðir áður en þeir fara austur
20.12.2020 - 13:00
Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar ætla að fljúga austur á firði á þriðjudagsmorgun. Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, segir að eftir samtal við heimamenn á Seyðisfirði hafi verið ákveðið að fara ekki austur í fyrramálið eins og upphaflega stóð til heldur fresta því fram á þriðjudagsmorgun. Ráðherrarnir verða á morgun skimaðir fyrir kórónuveirunni líkt og allir þeir sem fara til Seyðisfjarðar þessa dagana.
Lísa segir að heimafólk fyrir austan hafi í nógu að snúast í dag og á morgun og því hafi verið ákveðið, í fullu samráði fyrir heimamenn, að ráðherrarnir kæmu á þriðjudag. Þetta var ákveðið nú í hádeginu.
Fjórir ráðherrar fara austur, forsætisráðherra, fjármálaráðherra, sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra sem jafnframt er ráðherra almannavarna. Þau fljúga með áætlunarflugi á þriðjudagsmorguninn á Egilsstaði og fara svo á Seyðisfjörð. Þar ætla þau að hitta heimamenn og skoða ummerki eftir skriðurnar. Nákvæm dagskrá liggur ekki fyrir.