
Ísland sagt hafa tryggt sér lítið af bóluefni
Þegar er búið að tryggja Íslendingum hátt í 400 þúsund skammta af bóluefnum frá Astra Zeneca og Pfizer og áætlað er að skrifa undir samning við Janssen í síðasta lagi á Þorláksmessu. Samtals eru þetta 700 þúsund skammtar sem ættu að duga til að bólusetja nær alla íbúa landsins.
Í úttekt Bloomberg segir að öll lönd i Vestur-Evrópu, nema Ísland, og einnig Norður-Ameríka, Ástralía og nokkur lönd í Mið- og Suður-Ameríku hafa tryggt sér margfalt meira kórónuveirubóluefni en þarf fyrir alla íbúana.
Íslensk stjórnvöld sendu í framhaldinu frá sér tilkynningu þar sem frétt Bloomberg var leiðrétt.
Þar er löndum heims gefinn litur eftir því hversu marga skammta af bóluefni þau hafa tryggt sér miðað við íbúafjölda. Löndin sem hafa tryggt sér hlutfallslega mest af efninu eru dökkgræn, en þau sem hafa tryggt sér minnst eru ljósgul.
Ísland er eitt ljósgulu landanna ásamt mörgum af fátækustu ríkjum heims, en þar eru líka lönd eins og Kína og Sádi-Arabía.
Um 8,2 milljarðar skammta af kórónuveirubóluefni hafa samtals verið pantaðir frá lyfjaframleiðendum. Þetta magn dugar til að bólusetja helming jarðarbúa, en flest bóluefnin þarf að gefa í tveimur skömmtum með nokkura daga millibili.
Lyfjunum er þó síður en svo skipt bróðurlega á milli landa heims, ríkustu löndin hafa sum hver tryggt sér meira bóluefni en þarf fyrir alla íbúa þeirra. Til dæmis hafa stjórnvöld í Kanada, þar sem íbúar eru 38 milljónir, tryggt sér bóluefni fyrir 190 milljónir manna. Bandaríkin hafa tryggt sér bóluefni fyrir 505 milljónir manna, en þar búa um 328 milljónir. Ástralir hafa tryggt sér bóluefni fyrir 59 milljónir sem er meira en tvöfaldur íbúafjöldi landsins og Bretar hafa tryggt bóluefni fyrir 197 milljónir sem er meira en þrefaldur íbúafjöldi, samkvæmt úttektinni.