Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Í stöðugu sambandi við Breta vegna nýs COVID afbrigðis

20.12.2020 - 11:33
epa08525390 World Health Organization (WHO) Director-General Tedros Adhanom Ghebreyesus attends a press conference organized by the Geneva Association of United Nations Correspondents (ACANU) amid the COVID-19 pandemic, caused by the novel coronavirus, at the WHO headquarters in Geneva, Switzerland, 03 July 2020.  EPA-EFE/FABRICE COFFRINI
Tedros Adhamom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.  Mynd: EPA-EFE - Keystone
Fulltrúar Alþjóða heilbrigðismálastofnuninnar eru í stöðugu sambandi við fulltrúa breskra stjórnvalda vegna nýs afbrigðis af COVID-19 sem greint hefur verið í Bretlandi.

Í færslu stofnunarinnar á Twitter segir að bresk stjórnvöld veiti jafnóðum upplýsingar um framgang rannsókna á afbrigðinu og að stofnunin ætli að deila þeim með aðildarríkjum sínum. 

Engar vísbendingar eru um að nýja afbrigðið valdi fleiri dauðsföllum, né um að bólusetning virki ekki gegn því, né aðrar meðferðir sem beitt er gegn sjúkdómnum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, greindi frá því í gær að vísbendingar væru um að nýja afbrigðið smitist allt að sjötíu prósent hraðar á milli fólks en önnur. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur greint frá því að mikil óvissa sé varðandi það hvort munur á hraða útbreiðslunnar sé svo mikill.

Rúmlega 60 prósent greindra smita í Lundúnum síðustu daga eru af nýja afbrigðinu. Þar í borg og á suðuraustur Englandi á fólk að halda sig heima frá og með deginum í dag og fram yfir jól. Gripið er til þessarra hertu reglna vegna útbreiðslu nýja afbrigðisins. Þá verður öllum verslunum, nema þeim sem selja brýnustu nauðsynjar, gert að hafa lokað. Þessar hertu reglur hafa áhrif á hátíðarnar hjá um 18 milljónum manna. 

Allt farþegaflug frá Bretlandi til Hollands hefur verið bannað frá og með deginum í dag vegna fregna af nýja afbrigðinu. Bannið gildir fram á nýársdag. Nýja afbrigðið hefur einnig verið greint í Hollandi.