Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Guðni: „Hljótum að þakka þá guðs mildi að enginn fórst“

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
„Framar öllu hljótum við að þakka þá guðs mildi að enginn fórst í þessum hamförum. Það skall svo sannarlega hurð nærri hælum og hann lýsti því vel, Brimir Christophsson í fréttunum í gær,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Þakklæti sé honum ofarlega í huga fyrir þá miklu samstöðu sem fólk hafi sýnt og skotið skjólshúsi yfir Seyðfirðinga. Hann hvetur fólk til að styrkja björgunarsveitir og Rauða krossinn. Guðni hyggst heimsækja Seyðfirðinga við fyrsta hentugleika.

Guðni er jafnframt þakklátur öllum þeim sem sinna almannavörnum. „Þetta megum við Íslendingar þakka fyrir, að eiga fólk sem er til taks hvar sem er og hvenær sem er,“ segir Guðni.

Núna sé brýnast að hefja hreinsunarstarf þegar aðstæður leyfa. Þá taki uppbygging við. 

„Ég vil líka nefna að núna um áramótin skjótum við ekki upp flugeldum í eins miklum mæli og verið hefur. Því valda sóttvarnir okkar. Björgunarsveitirnar missa þannig af drjúgri tekjulind. Ég hvet alla sem á því hafa tök að styrkja björgunarsveitirnar með öðrum hætti, og aðra sem við reiðum okkur á, Rauða krossinn og fleiri. Þannig að þeir sem eru reiðubúnir að halda á vettvang á örlagastundu finni þakklæti og fái þá aðstoð sem þarf til þess að þeir geti sinnt þessari brýnu skyldu í okkar samfélagi,“ segir Guðni. 

Hann sendir Seyðfirðingum hlýjar kveðjur. „Ég hef notið gestrisni þeirra og góðvildar og ég hlakka til að halda við fyrsta hentugleika aftur austur og finna á þessum fallega stað þann kraft sem býr í fólkinu. Það eru engar ýkjur og ég held að allir landsmenn séu sammála mér um að Seyðisfjörður er fallegur staður, orkumikill og þarna mun áfram blómstra fallegt og öflugt mannlíf,“ segir Guðni.