Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fleiri Evrópulönd setja bann á ferðir frá Bretlandi

20.12.2020 - 17:26
epa08889968 Shopper walk by a government alert notice in London, Britain, 17 December 2020. The highest tier for coronavirus rules, Tier 3, has been extended across southern England ahead of the Christmas break. British Prime Minister Boris Johnson has urged people to keep Christmas celebrations short and small to reduce the risk of spreading Covid-19 coronavirus over the festive period.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þeim Evrópulöndum fjölgar sem hyggjast banna flugferðir frá Bretlandi vegna útbreiðslu nýs afbrigðis kórónuveirunnar þar í landi. Stjórnvöld í Þýskalandi og á Írlandi hafa þegar tilkynnt um slíkar ákvarðanir og fleiri lönd eru sögð íhuga það sama, en fyrr í dag tóku stjórnvöld í Belgíu og Hollandi slíka ákvörðun. Arancha González, utanríkisráðherra Spánar, kallar eftir sameiginlegri ákvörðun Evrópusambandslandanna.

Talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar birti færslu þessa efnis á twitter-síðu sinni, en bannið gildir frá og með miðnætti og fram á gamlársdag.

Embætti ríkislögreglustjóra í Þýskalandi gaf út viðvörun í dag þar sem Þjóðverjar eru varaðir við að ferðast til Bretlands nema nauðsyn beri til.

Þýsk yfirvöld hafa ennfremur sett bann við ferðum flugvéla frá Suður-Afríku til landsins en þetta nýja afbrigði hefur einnig breiðst út þar.

Það er sagt meira smitandi en önnur og  hefur greinst á landamærunum hér. 

Breskum flugvélum verður bannað að lenda á Írlandi frá og með miðnætti og breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að Ítalir, Spánverjar, Austurríkismenn og Frakkar íhugi að gera slíkt hið sama. 

Þá tilkynntu norsk heilbrigðisyfirvöld í dag að allir sem kæmu til landsins og hefðu verið í Bretlandi síðustu tvær vikur á undan, þyrftu að fara í skimun.