Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ekkert dramatískt í þessu breska afbrigði“

20.12.2020 - 20:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Við erum á því að það sé ekkert í þessari bresku týpu sem sé meira smitandi umfram það sem við sáum í þessari „bláu veiru“ í sumar. Það er ekkert dramatískt í þessari veiru og ef þetta afbrigði er eitthvað smitnæmara þá er það mjög lítið,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um breska afbrigðið svokallaða. Fyrirtækið fylgist með öllum röðum sem séu settar inn í gagnagrunna.

Fjölmörg Evrópulönd hafa sett á ferðabann á Bretland; Holland, Belgía, Frakkland, Ítalía, Þýskaland og Írland.

Ástæðan er nýtt breskt afbrigði sem Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt sjötíu prósent meira smitandi. Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði í viðtali við Sky fyrr í dag að þetta veiruafbrigði væri nánast stjórnlaust á Englandi. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði við fréttastofu í dag að hann væri ekki viss um hvað Bretar hefðu fyrir sér að þetta væri bundið við veiruna sjálfa, að hún væri meira smitandi.  „Það kann vel að vera en það er ekki komið fram á hverju það er byggt. Það kann vel að vera að þetta tengist hegðun fólks, að það sé að hópast saman og passar sig ekki. Það er lykillinn að dreifingu.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við fréttastofu að sóttvarnalæknir hafi leitað til fyrirtækisins sem fylgist með öllum raðgreiningum sem settar séu inn í gagnagrunna.  „Við erum á því að það sé ekkert í þessari týpu sem er umfram það sem við sáum í bláu veirunni svokölluðu.“

Bláa veiran var drifkrafturinn í þriðju bylgjunni hér á landi til að byrja með og greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum. „Það er ekkert dramatískt í þessu afbrigði. Ef það er eitthvað smitnæmara í því þá er það eitthvað lítið.“

Kári telur því enga ástæðu til að grípa til svipaðra aðgerða og önnur lönd hafa gert í dag og hann grunar að breska ríkisstjórnin og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin séu að nýta þetta veiruafbrigði til að hvetja fólk og önnur lönd að fara varlega um jólin. „Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu veiruafbrigði og ættum ekki að banna fólki að fljúga frá Bretlandi né öðrum löndum.“

Það sem stjórnvöld ættu að hafa áhyggjur af er að landamæri Íslands virðast vera orðin lek. „Við erum að sjá þess greinileg merki að það þurfi að herða eftirlit. Það greinast ný afbrigði sem benda til þess að landamærin séu ekki jafn þétt og þau ættu að vera.“