Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ef þú ert með jól í hjartanu skiptir staðurinn engu

20.12.2020 - 19:56
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ef þú ert með jól í hjartanu þá skiptir ekki máli hvar þú ert, segir maður á níræðisaldri sem hyggst verja jólunum á Grund. Hann saknar þess þó að heimsækja ættingja. Það er hægt að halda jól hvar sem er, segir hann.

Brynjólfur hefur dvalið á Grund á þriðja ár. Hann er áttatíu og sjö ára. Undanfarin ár hefur hann farið og heimsótt börnin sín yfir hátíðirnar. En í ár er það ekki hægt því íbúar hjúkrunarheimila eru beðnir um að fara ekki í jólaboð til ættingja og vina þessi jólin og heimsóknir á heimilin verða takmarkaðar.

„Ég ætla að vera hérna. Mér finnst ekkert vit að fara út í bæ og ætla að fara að breyta þessu. Þetta hefur verið haldið sæmilegt eins og þetta hefur  verið. Maður vonar að það sé fram undan betri tíð,“ segir Brynjólfur.

Hann er þó öllu vanur þegar kemur að jólum.

„Ég var sjómaður sem ungur maður eða fram á elliár og við héldum jólin stundum úti á sjó,“ segir Brynjólfur.

Hann kvartar ekki undan því að komast ekki út af Grund um jólin.

„Þetta er bara nauðsynlegt að hafa þetta svona. Ég er samþykkur því. Það þarf ekkert að vera dreifa þessu um allt, holt og hóla. Það er alveg fráleitt að dreifa þessari pest,“ segir Brynjólfur.

En heldurðu að þú munir ekkert sakna þess að komast ekkert til ættingja um jólin?

„Jú, ég geri það. Ég sakna fólksins. Það gerir maður, að vera ekki innan um sitt fólk,“ segir Brynjólfur.

Hlakkar þú til jólanna?

„Já, jólin eru alltaf jól. Þau eru það,“ segir Brynjólfur.

En sérðu fram á að af því að þetta ástand er núna það verði jólin svolítið... .?

„Flöt meinarðu? Nei, veistu það. Ég held ekki. Ef þú ert með jól í hjartanu þá eru alltaf jól. Ég er á því. Það er hægt að halda jól hvar sem er,“ segir Brynjólfur.