Átta féllu í bílsprengjuárás í vesturhluta Kabúl, höfuðborg Afganistan í morgun. Að minnsta kosti fimmtán særðust í sprengingunni að sögn Tariq Arian talsmanns innanríkisráðuneytis landsins.
Konur og börn eru meðal hinna látnu. Sprengjan var mjög öflug og olli tjóni á nálægum byggingum. „Hryðjuverkaárás hefur verið gerð á borgina,“ segir Arian.
Fréttamyndir af vettvangi sýna tvo bíla í ljósum logum og þykkan, svartan reyk sem berst frá þeim. Mikið hefur verið um árásir af þessu tagi í Kabúl undanfarna mánuði þrátt fyrir yfirstandandi friðarviðræður ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Talibana.